26/04/2024

Er hvalur á firðinum? – Hvalaskoðun af landi

Eins og kunnugt er vinnur Strandagaldur í samvinnu við Náttúrustofu Vestfjarða að fornleifarannsóknum á minjum baskneskra hvalveiðimanna á Strákatanga í Hveravík í Steingrímsfirði. Stefnt er að því að í framtíðinni verði hægt að nýta staðinn sem athyglisverðan stað í ferðaþjónustu og að Steingrímsfjörður verði Mekka hvalaskoðunar úr landi á Íslandi. Til þess að svo megi vera þarf að skrásetja hvalakomur í Steingrímsfjörð og reyna að sjá nokkuð nákvæmlega hvar og hvenær árs er helst von til þess að sjá hvali, en það er nokkuð algeng sjón að sjá hvalavöður og einstaka hvali á firðinum.

Strandagaldur vill því beina því til íbúa við Steingrímsfjörð að láta vita af hvalasýn og tilkynna það til skrifstofu Strandagaldurs sem mun halda skrá um hvalakomur og reyna að átta sig á því á hvaða árstíma er mest von fyrir ferðamenn að berja þessi risaspendýr augum. Sjómenn eru sérstaklega beðnir um að hafa augun hjá sér og tilkynna Strandagaldri um hvalaferðir á firðinum. Vonast er eftir góðu samstarfi við íbúa Steingrímsfjarðar og gert er ráð fyrir því að þessar rannsóknir standi yfir í þrjú til fjögur ár.

Þegar tilkynnt er um hvalasýn er gott að fram komi hvaða dag það átti sér stað, á hvaða tíma dags og hvar viðkomandi var staðsettur við fjörðinn þegar hann sá hvalina á firðinum. Allar ljósmyndir af hvölum í Steingrímsfirði eru vel þegnar og þær mega vel vera teknar úr nokkurri fjarlægð. Netfang Strandagaldurs er galdrasyning@holmavik.is og síminn er 451 3528.