19/09/2024

Kynningarfundur hjá H-lista

H-listinn sem býður sig fram í kosningum til sveitarstjórnar í sameinuðum Broddanes- og Hólmavíkurhreppum hélt opinn spjallfund í gær í félagsheimilinu á Hólmavík. Þar sátu frambjóðendur listans fyrir svörum og kynntu stefnumál sín. Mæting á fundinn var fremur dræm en umræður voru á köflum fjörugar. Már Ólafsson sem leiðir listann setti fundinn og bauð fundarmönnum að spyrja frambjóðendur út í stefnuna. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is var á staðnum og punktaði hjá sér eitt og annað sem fram kom.

Töluvert var rætt um atvinnumál á fundinum og sagði Már Ólafsson að listinn legði mikla áherslu á þann málaflokk. Áfram þyrfti að vinna í atvinnumálunum eins og gert hefur verið, en það væri ekkert auðvelt að finna ný atvinnutækifæri og það sé mjög dýrt að stofna ný störf t.d. í sjómennskunni. Því þurfi að leita á önnur mið. Kristín Einarsdóttir bætti því við að það væri mikilvægt að menn héldu vöku sinni í þessum málum og nefndi sérstaklega að vinna þyrfti að því að nýta verkefnisstjóra Atvest á Hólmavík í verkefni á svæðinu. Sagði Kristín að auka þyrfti eftirfylgni og að menn bindu miklar vonir við störf atvinnuþróunarfulltrúa. Eins væri þörf á að láta kanna möguleika í fjarvinnslu rækilega – störf sem megi vinna hvar sem er.

Spurt var um æskulýðsmál og stefnu listans í þeim málum og varð Kristín Einarsdóttir fyrir svörum. Það hefði verið stefna hreppsnefndar að gera vel við ungmenna- og íþróttastarf og staða í þessum málaflokki væri nokkuð góð í sveitarfélaginu. Svo dæmi væri nefnt gæfi Hólmavíkurhreppur Ungmennafélaginu Geislanum íþróttatíma í Íþróttamiðstöðinni fyrir tvær milljónir á ári. Ætlunin sé að halda áfram á þeirri braut að styðja vel við æskulýðsmálin.

Fram kom að frambjóðendur vildu fara yfir þörfina á húsnæði fyrir bókasafn, tónskóla og skólann og einnig að skoða eignir hreppsins og húsnæði. Hugmyndir um viðbyggingu við skólann eða tengibyggingu til að leysa úr þörf á húsnæði voru ræddar og reyfaði Eysteinn Gunnarsson hugmyndir um það. Már Ólafsson ræddi um skólaakstur í sveitarfélaginu og taldi að endurskoða þyrfti hann, t.d. með því að selja bílinn sem notaður væri við akstur barna úr Djúpinu.

Jón Stefánsson sem skipar baráttusætið á listanum skýrði stöðu mála hvað varðar Broddanesskóla sem þarf á viðhaldi að halda, en fram kom að sameiningarnefnd hreppanna tók frá 5 milljónir til að gera við húsið. Ekki væru hugmyndir um hvaða starfsemi gæti farið fram þar í framtíðinni, en 7-8 ár væru þangað til sveitarfélagið eignaðist húsið að öllu leyti, en nú væri það sameign ríkis og sveitarfélags. 

Spurt var um hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins og hvort til stæði að auka ábyrgð stjórnenda stofnana. Kristín Einarsdóttir varð til svara og sagði að mál væru að þróast í þessa átt hægt og bítandi. Tóku frambjóðendur undir hugmyndir fundarmanna og Kristínar varðandi stjórnun stofnanna og verkaskiptingu milli sveitarstjóra, nefnda og stofnanna.

Kosningin um nafn á sveitarfélaginu sem verður samhliða sveitarstjórnarkosningum var rædd fram og til baka og sýndist hverjum sitt varðandi það. Margir sem til máls tóku töldu að sameiningarnefnd hreppanna hefði ekki staðið nægilega vel að ákvörðunum um þetta málefni og skoðunakönnun varðandi nýtt nafn og að margir íbúar hefðu helst kosið að nafnið Hólmavíkurhreppur yrði notað áfram. Frambjóðendur H-listans voru þó ekki allir sammála í þessu efni. Talað var um að sjá hvað kæmi út úr kosningunni og hvort þar kæmu fram mótmæli við nafnabreytingunni, en ný sveitarstjórn hlyti að taka endanlega ákvörðun.

Ýmis önnur mál voru rædd, svo sem hvort hægt væri að láta ferðamenn veiða refi, en sú hugmynd var sett fram af töluverðum þunga af einum fundarmanni. Virtust þær hugmyndir fá nokkuð misjafnar undirtektir. Lausaganga hrossa í sveitarfélaginu var einnig rædd og kom fram að hún væri alfarið bönnuð í Broddaneshreppi en leyfð yfir sumarið í Hólmavíkurhreppi. Þá fór drjúgur tími í að ræða hvaða opnunartími á sundlauginni á Hólmavík væri heppilegastur fyrir ólíka hópa.