22/12/2024

Snjórinn 1995 á Bryggjuhátíð

Snjórinn 1995 er þema ljósmyndasýningar sem Bryggjuhátíðin hefur sett upp á Drangsnesi. Veturinn 1995 var með eindæmum snjóþungur og sérstaklega á Drangsnesi þar sem bókstaflega allt var á kafi í snjó. Þegar myndirnar eru skoðaðar og svo litið í kringum sig á þau hús sem á myndunum eru getum við aðeins gert okkur grein fyrir ástandinu þennan vetur fyrir 15 árum. T.d. var eitt íbúðarhúsið mokað upp 4 sinnum frá 19. janúar til 30 janúar og svo hættu menn að telja.

Erfiðlega gekk að halda mokstursáætlun til Hólmavíkur og var vegurinn alveg lokaður samfellt í 7 vikur. Jarðýta Kristjáns Guðmundssonar á Hólmavík var staðsett á Drangsnesi til að reyna að halda opnu inn í Kokkálsvík og var hún einnig notuð til að koma snjónum frá húsum og út í sjó. Þrátt fyrir það þurfti iðulega að sækja aðföng með snjósleðum inní höfn þar sem ekki vannst tími milli bylja til að opna leiðina. Um leið og veður slotaði aðeins voru nánast allir sem vettligni gátu valdið komnir út með skóflu í hendi. Björgunarsveitin Afturelding úr Mosfellsbæ kom með snjóbíl og aðstoðaði við moksturinn. Þeir höfðu aldrei fyrr séð önnur eins ósköp af snjó.

Þessi sýning er einn liður í Bryggjuhátínni sem verður haldin þann 17. júlí n.k og er útisýning svo hana er hægt að skoða hvernær sem er. Skemmtileg afþreying og fræðandi fyrir ferðafólk á leið um Strandir.

Þá eru á sama holti uppsett svokölluð staðreyndaskilti með mörgum litlum og skemmtilegum staðreyndum sem gaman er að skoða.