24/04/2024

Snjómoksturstækjum fjölgað

Nú í vikunni fékk Vegagerðin leigðan traktor til snjómoksturs í Árneshreppi til viðbótar við þau tæki sem fyrir eru. Ekki veitir af því snjór er með mesta móti, eins og fram kemur á fréttavefnum www.litlihjalli.it.is sem Jón G. Guðjónsson sem jafnframt er fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is í Árneshreppi heldur úti. Vegagerðin hefur til margra ára haft varasnjóblásara til taks á Gjögurflugvelli til öryggis vegna snjóruðninga þar á flugbrautinni ef hinn bilar, enda má ekki bregðast þessi eina samgönguleið fyrir Árneshrepp sem flugið er.


Nú í vikunni var þessi varasnjóblásari settur á dráttarvél frá bóndanum í Bæ, Massey Ferguson 4255 sem er allstór og nýleg fjórhjóladrifin vél, um 95 hestöfl. Þessi snjóblásari er sérútbúinn, með sérstakan 160 hestafla mótor til að knýja hann og er allt vökvastýrt. Snjóblásarinn sjálfur er settur framan á ámoksturstæki traktorsins og stjórnað úr vélinni, enn mótorinn er settur aftan á þrítengi vélarinnar. Vélamaður á þessari vél er Gunnar G. Dalkvist bóndi í Bæ í Trékyllisvík.

Nú eru þrjú snjóruðningstæki í hreppnum, þar af tvö með snjóblásara, en eitt þeirra starfar aðallega við að halda flugbraut opinni á Gjögurflugvelli. Ekki veitir af í öllum snjónum sem nú er í Árneshreppi. Samkvæmt upplýsingum Jóns G. Guðjónssonar veðurathugunarmanns í Litlu-Ávík var mesta snjódýpt miðað við jafnfallinn snjó 68 cm þann 9. janúar og var þá einna mest á landinu við veðurstöð.