12/09/2024

Snæuglan að hressast

Snæuglan sem Þórólfur Guðjónsson fann fasta í girðingu á Ósi fyrr í haust er heldur að braggast, þótt enn sé tvísýnt með hvort hún nái bata. Eftir stranga læknismeðferð fór uglan í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn þar sem hún hefur dvalist síðan. Margrét Dögg Halldórsdóttir yfirdýrahirðir segir að enn sé langt í land, sárið á vængnum hafi verið ansi slæmt, þótt engin bein hafi verið brotin:  „Í dag var hún sett í smádýrahúsið okkar til að hún fengi rýmra pláss og um leið geta gestir barið hana augum."

Sárið var saumað eins og kostur var og uglan fór síðan eftir læknismeðferðina á lyfjakúr til að vinna á sýkingu. Uglan hefur sýnt ýmis batamerki, er orðin hressari og viðskotaill í meira lagi sem er hið besta mál og merki um hreysti. Hún er dugleg að éta og áhugasöm um umhverfi sitt. 

Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn hefur allt frá 1990 sinnt villtum dýrum í hremmingum, eins og nánar má lesa um á vefsíðu þeirra. Áður var fjallað um ugluna og birtar myndir af henni hér á strandir.saudfjarsetur.is í þessari frétt.

Ljósm. Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn