19/09/2024

Smalaraunir

Þann 24. september skyldi samkvæmt fjallskilaseðli Kaldrananeshrepps leitaður Hvannadalur. Það er dalskora sem gengur fram úr Selárdal, bæði klettótt, brött og frekar leið yfirferðar jafnvel þótt snjólaust sé. Ekki tókst að framkvæma tilskipun fjallskilanefndar, því eins og menn muna þá rann á með norðan hret  og norðan hretin eru jafnvel komin á undan veðurspánni  í Hvannadal. Þetta hret stóð linnulítið nánast alla vikuna af mismiklum ofsa,  en fannkoma hefur verið talsvert mikil til fjalla. 

Síðasta laugardag, þann 1. okt., var besta veður á þessum slóðum og því örkuðu af stað sex hörku smalar og sjöundi haltur og nú átti að reyna að bjarga því fé sem enn stæði uppi þarna fram frá. Svo fór þó að ekki reyndist fært á dalinn því komið var hjarn sem ekki var fært að fóta sig á í þeim bratta sem þarna er. Því var niðurstaðan að blásið var til undanhalds, áður en til óhappa kæmi.

Ekki var þó ferðin með öllu gagnslaus því 36 kindur voru komnar í vagninn áður en til bæja var komið. Þar af voru þrjár útigengnar kindur, ein ær frá Melgraseyri og ær með veturgamla dóttir sína frá Laugalandi. Þetta er svo sem ekki annað en það sem smalar hafa verið að berjast við hér um slóðir að undanförnu, því þessi óveðurskafli hefur verið óvanalega snemma á ferðinni og líka staðið of lengi.

Á myndunum sem  fylgja sést að kominn er talsverður snjór alveg niður í dalbotn sem í rauninni er bara breidd árinnar. 

Á heimleið. Litið til baka fram í mynni Hvannadals. Vestari Ófæra fyrir miðri mynd, en Þröskuldshólar til vinstri. Austari Ófæran sést ekki.

Á heimleið, en leiðin ekki mjög greið. Heiman við hornið framundan er Kattargil.
– Ljósm. Guðbrandur Sverrisson