22/12/2024

Slökkvibíll í Bæjarhrepp

Nýi brunabíllinnÁ fundi hreppsnefndar Bæjarhrepps þann 18. desember var samþykkt að kaupa International slökkvibíl frá Brunavörnum Suðurlands á Selfossi. Bíllinn, sem er m.a. með 1800 lítra vatnstank, froðutank, 3000 lítra slökkvidælu og tvö 60 metra 1" slönguhjól, var orðinn fulllítill til að þjóna sínu hlutverki á Selfossi en kemur til með að henta vel í Bæjarhreppi.

Slökkvibíllinn er með drifi á báðum öxlum, mjög lítið ekinn og fékkst á góðu verði. Lítillega þarf að kíkja á vélina, en annars er bíllinn í góðu lagi. Nánar verður sagt frá bílnum og fleiri myndir birtar af honum þegar hann kemur norður.

Brunavarnir Bæjarhrepps hafa verið til aðstoðar í slökkvistörfum utan hreppsins á undanförnum árum, þá fyrst og fremst í samvinnu við Brunavarnir Húnaþings vestra í Staðarhreppi. Einnig hefur komið upp að slökkvilið Bæjarhrepps hefur sinnt útköllum í Bitrufjörð. Mun þessi bætti tækjakostur slökkviliðsins í Bæjarhreppi geta komið til góða á fyrrnefndum svæðum.

Slökkvistöðin í Bæjarhreppi er staðsett á Borðeyri – ljósm. Sveinn Karlsson