22/12/2024

Skreið úr egginu síðastliðið vor

Haförn, ársgamall

Mynd af ungum haferni sem var tekin við Sauðfjársetrið í Sævangi um síðustu helgi var send til helsta arnarsérfræðings landsins til greiningar, enda sáust vel númer á merkjunum á fótum hans. Sérfræðingurinn heitir Kristinn Haukur Skarphéðinsson og hefur nú upplýst að fuglinn hafi skriðið úr eggi sínu á árinu 2015, væntanlega í júní. Hann er því ekki orðinn ársgamall, sem passar vel við að Strandamönnum hefur fundist veiðitilburðir hans hálf klaufalegir. Fyrstu mánuðina var unginn í góðu yfirlæti á heimaslóðum sínum í vestanverðum Reykhólahreppi, en hefur síðustu vikur skoðað heiminn og staldrað við á Ströndum. Hugsanlega fylgir hann eldri erni á ferðalögum sínum, en fullorðinn örn hefur einnig sést margsinnis á Ströndum síðustu vikur á sömu slóðum, þótt fuglarnir fylgist ekki beinlínis að. Myndina tók Jón Jónsson.