11/09/2024

Skráningarfrestur rennur út á morgun

Kaldrananeshreppur hefur staðfest formlega að sveitarfélagið muni styðja við bakið á þátttakendum úr hreppnum í Brautargengis námskeiði sem hefst 9. september n.k. Sambærilegt erindi er nú til afgreiðslu hjá Strandabyggð, en líklegt má telja að það muni verða samþykkt. Ekki er skilyrði að þátttakendur á námskeiðinu hafi ákveðna viðskiptahugmynd til að geta skráð sig á námskeiðið. Nú þegar hafa sex konur skráð sig til þátttöku og mikil eftirvænting virðist vera í hópnum. Skráningarfrestur rennur út fimmtudaginn 31. ágúst og er áhugasömum velkomið að hafa samband við Viktoríu Rán í síma 451 3521 og skrá sig eða fá frekari uppplýsingar.

Á Brautargengi er lögð áhersla á að þátttakendur kynnist grundvallaratriðum um stofnun fyrirtækja og þeim þáttum sem snúa að fyrirtækjarekstri.  Þátttakendur fá hagnýta fræðslu í stefnumótun, markaðsmálum og fjármálum auk annarra þátta.  Í lok námskeiðsins hafa þátttakendur skrifað viðskiptaáætlun fyrir væntanlegt fyrirtæki/þjónustu.  Verkefnin sem unnið hefur verið með eru fjölbreytt og má sem dæmi nefna ýmiss konar heilsuráðgjöf og þjónustu, bókaútgáfu, búrekstur, snyrtistofu og heilsulind, listamiðstöð fyrir börn, gistiheimili, veitingastaði og kaffihús, kerta- og glerframleiðslu, sjúkraþjálfun, auglýsingastofu, meðferðardeild fyrir verkjasjúklinga, upplýsingaþjónustu á vefnum varðandi heilsu, hollustu og mannrækt, þjónustu við hestamenn og ritvinnsluver fyrir fjölmiðla. 

Á annað hundrað konur hafa lokið Brautargengi á landsbyggðinni, yfir fimmhundruð á landinu í heild, og hafa margar þeirra unnið áfram að sínum viðskiptahugmyndum.  Samkvæmt niðurstöðum könnunar sem gerð var á árangri Brautargengis eru nú 50 – 60% kvenna sem lokið hafa Brautargengisnámi með fyrirtæki í rekstri og telja flestar að námskeiðið hafi skipt mjög miklu máli varðandi það að þær fóru af stað með rekstur. Einnig telur mikill meirihluti þeirra að þær séu mun hæfari stjórnendur eftir að hafa lokið náminu. Flest þessara fyrirtækja eru með 10 starfsmenn eða færri en þó eru nokkur með yfir 30 starfsmenn.

Óhætt er því að segja að Brautargengisnám komi atvinnulífinu til góða þar sem kraftar kvenna nýtast í störfum sem annars hefðu ekki orðið til.  Námskeiðið hefur skilað miklu til þátttakenda og reglulega berast fréttir af góðum árangri þeirra í atvinnulífinu.  Mikilvæg tengsl hafa myndast sem halda áfram að koma að gagni eftir að námskeiðinu er lokið. 

Mikill áhugi hefur reynst á Brautargengi á landsbyggðinni og hefur það sýnt sig að stuðningur sveitarfélaga hefur verið konum mikil hvatning til að taka þátt í námskeiðinu og að vinna að sínum hugmyndum í framhaldi af því.  Þátttakendur koma víða að og má sem dæmi nefna að konur frá Akureyri, Mývatnssveit, Skagafirði, Dalvík, Ólafsfirði, Hrísey, Bolungarvík, Ísafirði, Fáskrúðsfirði, Seyðisfirði, Egilsstöðum, Selfossi, Skagafirði og Vestmannaeyjum hafa sótt námskeiðið.