21/11/2024

Sköpunarverkið Strandir


Ljósmyndasýningin Sköpunarverkið Strandir verður opnuð í Upplýsingamiðstöð ferðamanna á Hólmavík laugardaginn 5. maí klukkan 15:00. Á sýningunni getur að líta ljósmyndir og ummæli ferðamanna og heimafólks um Strandir. Sýningin er ekki hefðbundin listsýning heldur ein leið til miðlunar alþjóðlegs rannsóknarverkefnis um sköpun áfangastaða á norðurslóðum sem unnið er að í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Kanada ásamt Íslandi. Í íslenska hluta verkefnisins er áherslan á að fylgjast með mótun Stranda sem ferðamannastaðar.

Ferðamenn jafnt sem heimamenn voru beðnir að senda inn ljósmyndir sem þeir töldu vera lýsandi fyrir Strandir. Á annað hundrað ljósmynda var safnað og á sýningunni getur að líta úrval þeirra.

Titill sýningarinnar vísar til þess hvernig staður verður til með athöfnum fólks og tengslum þess við hluti og umhverfi; menningu og náttúru. Myndirnar varpa ljósi á hvernig fólk upplifir stað og tengir hann og sögu hans sínum eigin bakgrunni og sögu(m). Um leið draga margar myndanna fram hvernig menning og náttúra, sem okkur er tamt að hugsa um sem aðskilin, fléttast saman í daglegum athöfnum okkar sem eiga þátt í að skapa sérhvern stað, hvort sem við eigum þar heima eða eigum leið þar um sem ferðafólk.

Sýningin verður sett upp á fimm mismunandi stöðum á Ströndum sem allir eru vinsælir áfangastaðir ferðamanna og vonast aðstandendur til þess að hún verði til þess að auka enn frekar upplifun ferðamanna af sköpunarverkinu Ströndum.

Sýningin verður á eftirtöldum stöðum sumarið 2012

5.-27. maí á Upplýsingamiðstöð ferðamanna á Hólmavík
1.-29. júní á Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði
1.-25. júlí í hlöðunni hjá Ferðaþjónustunni Urðartindi í Norðurfirði
27. júlí – 19. ágúst í Erróstofunni á Hótel Djúpavík
20. ágúst – 16. september á veitingahúsinu Malarkaffi á Drangsnesi