26/04/2024

Sjónræn veisla á Ströndum

640-snjor5 Síðustu tvo vetur hefur Skelin, fræðslu- og menningardagskrá Þjóðfræðistofu, verið starfrækt og fjölbreyttur hópur lista- og fræðimanna hafa sett svip sinn á bæjarlífið á Hólmavík með margs konar viðburðum. Í því sambandi má nefna fjölskyldutónleika Retro Stefson í Bragganum, barnaleikjasýninguna Ekki snerta jörðina! í íþróttamiðstöðinni, ritsmiðju og ljósmyndanámskeið í Skelinni, fjölmargar myndlistar- og ljósmyndasýningar ásamt fræðslufyrirlestrum, m.a. um Fjalla-Eyvind, málefni fatlaðra, gróður og garðrækt, danska innflytjendur og viðmótshönnun svo fátt eitt sé talið.

Þjóðfræðistofa ætlar nú að þakka kærlega fyrir þær góðu viðtökur sem Skelin hefur fengið, fagna sumarkomu og bjóða upp á sjónræna veislu. Veislan hefst hér á Hólmavík á opnunarhátíð Hnyðju þann 4. maí, en hún mun svo ferðast víðar um Vestfirði sem hluti af verkefninu Flækja-Farand(mynda)hátíð, sem styrkt er af Menningarráði Vestfjarða.

Eftirfarandi sýningar verða á boðstólnum:  

Fyrirmyndir eftir myndlistarkonuna Ólöfu Dómhildi Jóhannsdóttur. Þetta verk tengist verkefni sem Ólöf vann á meðan hún dvaldi í Skelinni nýverið og fjallar um ungar stúlkur og þeirra fyrirmyndir í samtímanum.

Water is Dress – dansstuttmynd eftir Clementine Delbecq dansara og kvikmyndagerðarkonu. Clementine tók myndina upp hér á Ströndum á meðan dvöl hennar í Skelinni stóð og skartar hún nokkrum hæfileikaríkum Strandamönnum í aðal- og aukahlutverkum.

Víf og Viður (The Log Ladies) ljósmyndasýning eftir danska ljósmyndarann Brian Berg. Brian hefur oft sótt Strandir heim, sett upp ljósmyndasýningar og haldið ljósmyndanámskeið fyrir bæði börn og fullorðna. Þessa ljósmyndaseríu tók hann hér á Hólmavík síðasta vetur af um 20 Strandakonum á öllum aldri.

Það eru allir hjartanlega velkomnir á þessar sýningar og aðgangur er ókeypis!