14/12/2024

Aðeins 6 í prófkjör hjá Framsókn

Samkvæmt fréttum ruv.is gáfu aðeins sex frambjóðendur kost á sér í fimm sæti sem kosið verður um í póstkosningu Framsóknarflokksins á framboðslista í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingskosningar næsta vor. Hugsanlegt er talið að kjörnefndin bæti við fleiri frambjóðendum. Tveir gefa kost á sér í 1. sæti á lista flokksins: Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra og Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður. Herdís Á. Sæmundardóttir sækist eftir 2. sæti, Valdimar Sigurjónsson og G. Valdimar Valdimarsson sækjast eftir 3. sæti og Inga Ósk Jónsdóttir sækist eftir 3. til 4. sæti.

Valið verður á listann í póstkosningu meðal félagsmanna í Framsóknarflokknum en kjörskrá lokar á föstudaginn og þurfa þeir sem hyggjast taka þátt að skrá sig í flokkinn fyrir þann tíma. Kjörgögn verða send út 3. nóvember og hálfum mánuði síðar, eða 17. nóvember, er síðasta móttökudagur atkvæðaseðla. Talning atkvæða fer fram þá um kvöldið.