11/11/2024

Skólastarfið gengur vel á Hólmavík

Grunnskólinn á Hólmavík hefur sótt um aðild að grænfánanum sem felst í umhverfisvænu viðhorfi varðandi úrgang og nýtingu. Búið er stíga fyrstu skrefin en stefnt er að fullri þátttöku innan þriggja ára. Ásta Þórisdóttir er verkefnastjóri en auk hennar eru m.a. tveir nemendur í nefnd um verkefnið. Ýmislegt er í bígerð hjá skólanum en gert er ráð fyrir framkvæmdum á lóð á fjárhagsáætlun næsta árs ásamt því að ljúka við þakskegg. Sótt hefði verið um styrk til Menningarsjóðs Vestfjarða vegna fyrirhugaðrar leiksýningar nemenda með leikfélagi Hólmavíkur í vor.

Skólanefnd skólans fundaði á dögunum og kom þar fram að skólastarfið hafi farið vel af stað og að sé skólinn vel mannaður. Sérkennsla er á höndum margra þetta árið og reynt að sníða kennsluna að þörfum barna. Greining á lesblindu fer fram í 4. bekk en þó er byrjað fyrr að fylgjast með börnunum og reynt að grípa inn í hjá þeim sem eiga í námsörðugleikum og þeim veittur eins mikill stuðningur og unnt er. Þá er mikilvægt að foreldrar komi inn í ferlið og styðji við starfið heima við. „Sé tekið mið af höfuðborgarsvæðinu má segja að hver bekkur hér sé sérkennslubekkur sé horft á fjölda nemenda í hverjum bekk“, segir í bókun fundarins.

Þá eru uppi hugmyndir um að koma á fót forvarnarráði í skólanum. Á fundinum var bent á að í stærri sveitarfélögum séu starfandi forvarnarráð sem geti verið fyrirbyggjandi og fræðandi fyrir börn sem foreldra. Í slíku ráði geti verið fulltrúi frá skólanum, annar frá lögreglunni, þriðji frá foreldrum og sá fjórði frá íþróttafélagi, svo dæmi sé tekið.

 Þessi frétt er afrituð af fréttavefnum www.bb.is.