12/09/2024

Skemmdarverk unnin í galdragarðinum

Skemmdarverk voru unnin í garði Galdrasýningarinnar á Hólmavík í gærkvöld. Að sögn erlendra sjónarvotta var um tvo unga pilta að ræða sem gerðu sér að leik að rífa upp plöntur í garðinum og henda í hrafnana sem halda til við sýninguna. Ekki er vitað hverja er um að ræða, en að sögn Sigurðar Atlasonar hjá Strandagaldri er það afar leiðinlegt að ekki skuli vera hægt að láta jurtirnar og fuglana í friði vegna einhverra undarlegra hvata gagnvart blómum og dýrum. "Það þarf að hafa mikið fyrir því að halda gróðrinum fallegum í garðinum og mikil vinna verið lögð í það," segir hann. Ætihvönnin varð verst úti en svo virðist sem piltunum ungu hafi þótt tilvalið að rífa hana upp með rótum, stöngul eftir stöngul og dreifa henni svo um svæðið. Að sögn sjónarvottanna var engu tauti við piltana komið, hvort sem það var vegna tungumálaörðugleika eða harðákveðins vilja þeirra til að skilja sem mestar skemmdir eftir sig.

Að sögn Sigurðar var um ellefu til þrettán ára pilta að ræða, en eins og fyrr segir þá varð enginn heimakunnugur á Hólmavík var við þá við safnið í gærkvöldi.