22/12/2024

Sjávarútvegsráðherra segir engin loforð hafi verið svikin


Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur bókað hörð mótmæli við skerðingu á
rækjubótum. Í bókuninni kemur fram að aðgerðin sé þvert á loforð ráðherra um að
þetta yrði ekki gert næstu árin og að skerðingin muni leiða til þess að ekki
verði neinn rekstrargrundvöllur fyrir þær útgerðir sem fyrir skerðingunni verða.
Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, segir þetta ekki rétt, hann
hafi engin loforð svikið og að önnur úrræði sé hægt að nota til þess að gera það
sem að er stefnt með markvissari og skilvirkari hætti. „Þetta er rétt,
rækjubæturnar voru skertar á þessu ári. Aðdragandinn er sá á að á sínum tíma
voru þessar bætur hugsaðar til 10 ára, skertust þar með um 1/10 á ári. Þegar að
ég kom í sjávarútvegsráðuneytið þá ákvað ég að hætta þessum skerðingum í bili
með það að markmiði að skapa meira öryggi hjá þeim útgerðum sem hafa notið
þessara bóta.“

Einar Kristinn segir bæturnar hafa verið að skila sér í litlum mæli til
útgerðanna. „Það hefur komið í ljós að um það bil þriðja hver útgerð, sem var að
fá þessar bætur, hefur selt aflaheimildar frá bæjarfélaginu. Sum staðar var
hlutfallið hærra. Þetta þýddi að bæturnar, sem upphaflega voru ætlaðar til að
styðja við útgerðirnar á svæðum sem höfðu orðið fyrir þessu áfalli þegar að
innfjarðarrækjuveiðin lagðist af, voru að skila sér í of litlum mæli. Það varð
því ljóst að þessi aðferð við að bæta mönnum skaðann var ekki að virka
nægjanlega vel, sem byggðaleg aðgerð. Þess vegna tók ég þá ákvörðun að hefja
skerðinguna að nýju.“

„Það er miklu áhrifaríkara að nota aðrar aðferðir,
svo sem byggðakvótann, til að koma til móts við þær byggðir sem eru í vanda
vegna rækjubrestsins. Það er augljóst að rækjubæturnar eru óskilvirk aðferð til
að gera það sem ætlast var til af þeim sem er að styðja við rækjuútgerðirnar og
hjálpa líka til í byggðunum. Ég hef engin loforð svikið, ég stóð við það að
stöðva skerðinguna og tel að það nái engri átt að halda við fyrirkomulagi sem
var í upphafi sett í byggðarlegum tilgangi, en er ekki að skila sér á þann hátt.
Við höfum önnur úrræði sem hægt er að nota til þess að gera það sem að er stefnt
með markvissari og skilvirkari hætti.“

Þetta kemur fram á fréttavefnum bb.is.