30/10/2024

Síðasta áætlunarferð Guðmundar Jónassonar

Þann 30. desember 2005 var farin síðasta áætlunarferð Guðmundar Jónassonar ehf á Strandir og er þar með lokið 50 ára farsælli þjónustu fyrirtækisins við Strandamenn. Gegnum tíðina hafa margir bílstjórar komið við sögu og hafa þeir viljað hvers manns vanda leysa. Það er ekki hallað á neinn þó sérstaklega séu nefndir öðrum fremur þeir fjórir bilstjórar sem komu með í síðustu ferðina, en þeir hafa samtals ekið Strandarútunni í 32 ár af þessum 50 og Strandamenn á öllum aldri verið samferða þeim.
Þetta eru Einar Valdimarsson, Þórhallur Geirsson, Valur Freyr Jónsson og Valdimar Ásmundsson. Vonandi er talað fyrir munn allra Strandamanna þegar þessum mönnum og einnig öðrum sem komu við sögu og ekki síst fyrirtækinu Guðmundi Jónassyni ehf. er þakkað fyrir dygga þjónustu.

Fimm bílstjórar sem ekið hafa Strandarútunni, fjórir lengi og einn í afleysingum, komu með henni í síðustu ferðina og stilltu sér upp fyrir ljósmyndarann við KSH – ljósm. Jón Jónsson

Bílstjórarnir fengu höfðinglegar móttökur í Sparisjóði Strandamanna þar sem þeir voru leystir út með gjöfum frá Sparisjóðnum, Íslandspósti, KSH og Hólmavíkurhreppi – ljósm. Kristín Einarsdóttir

Og ekki voru móttökurnar síðri á Drangsnesi – ljósm. Tryggvi Ólafsson

Strandarútan rennir úr hlaði í síðustu ferðinni – ljósm. Jón Jónsson