22/12/2024

Samstarf við fjárleit

Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum.Bændur í Steingrímsfirði og á Langadalsströnd vestur í Djúpi hafa haft með sé samstarf við fjárleit í vetur. Að sögn Guðbrandar Sverrissonar á Bassastöðum við Steingrímsfjörð fer það þannig fram að Guðbrandur álpast til að sjá kindurnar einhversstaðar og hringir í Reynir í Hafnardal sem fer þá af stað með Lóu konu sína og hundinn, handsamar ærnar og kemur þeim til byggða eftir að hafa lesið þeim pistilinn.

Guðbrandur segist hafa farið fjórar ferðir vestur yfir Steingrímsfjarðarheiði í desember til að sæða ærnar hjá bændum vestan heiðar og telur að það geti jafnvel verið að blæsmurnar séu farnar að njóta unaðs tækninnar svo mikið, að þær reyni því að sækja í sæðingarmanninn eins og hrútana áður fyrr.

Að sögn Guðbrandar fann hann tvær kindur í tveimur ferðum af fjórum í desember og og tvö lömb í gær þar sem hann var við snjómokstur í Lágadal. Þegar Reynir og hans lið komu á staðinn þá var annað lambið nýdautt en það var undan á frá Stað í Steingrímfirði sem félagarnir fundu þann 15. desember s.l. í svokölluðum Miðdalsmúla, sem var þar í hópi með tvílembdri ær frá Geirmundarstöðum ásamt annarri einlembdri frá Melgraseyri.

Auk þess segir sæðingarmeistarinn á Bassastöðum að þann 27. desember hafi hann fundið tvílembu sem hann á sjálfur í Tungu í Dalmynni og hann segir að óvenju margt fé hafi fundist á jólaföstunni allar götur frá Ennishöfða norður í Árneshrepp.