Samkvæmt heimildum strandir.saudfjarsetur.is verður samgönguáætlun fyrir næstu 4 ár lögð fram á Alþingi nú eftir helgi og er næsta víst að Strandamenn bíða margir spenntir eftir því. Vonandi verða menn ekki fyrir vonbrigðum, en ljóst er að flestir eru orðnir langþreyttir á því hve framkvæmdir hér á svæðinu ganga hægt og vegir eru slæmir. Ástand vega á Ströndum er víða óásættanlegt, bæði malbikaðra og malarvega. Nýr vegur um Arnkötludal er einnig ofarlega í huga margra og nýverið ályktuðu sveitarfélög á norðanverðum Vestfjörðum um að leggja ætti áherslu á að framkvæmdir á þeirri leið hæfust sem fyrst og hægt yrði að aka um Arnkötludal árið 2008.