30/10/2024

Sameiningarmál sveitarfélaga

Í byrjun apríl skipuðu sveitastjórnir Húnaþings vestra og Bæjarhrepps 2 fulltrúa hvor í samstarfsnefnd um sameiningu þessara sveitarfélaga. Þetta er gert samkvæmt bréfi dagsettu 31. mars frá nefnd um sameiningu sveitarfélaga á landinu. Lokatillaga nefndarinnar á þessu svæði var sú að kosið skuli um sameiningu Húnaþings vestra og Bæjarhrepps þann 8. október næstkomandi. Samstarfsnefndina skipa fyrir Bæjarhrepp Guðný Þorsteinsdóttir og Sigurður Kjartansson, en fyrir Húnaþing vestra Elín Líndal og Heimir Ágústsson. Starfssvið þessara nefnda sem skipaðar eru alls staðar þar sem kjósa á um sameiningu er að annast undirbúning atkvæðagreiðslunnar og gerð kynningarefnis um áhrif og afleiðingar hugsanlegrar sameiningar.

Á fyrsta fundi nefndarinnar  sem haldinn var þann 20. apríl, var tekin ákvörðun um að tilnefna í þrjá vinnuhópa um framtíðarsýn í málefnum sameinaðs sveitarfélags, ef til sameiningar kæmi. Einn vinnuhópurinn skyldi fjalla um stjórnsýslu og fjármál, annar um fræðslumál og sá þriðji um aðra þjónustu og skipulagsmál. Sveitarstjórnirnar tilnefndu síðan fulltrúa í vinnuhópana.
Í vinnuhópi um framtíðarsýn í stjórnsýslu og fjármálum hafa starfað fyrir Bæjarhrepp Sigurður Kjartansson og Sveinbjörn Jónsson, en fyrir Húnaþing vestra Skúli Þórðarson, Guðný Björnsdóttir og Elín Líndal. Í vinnuhópi um framtíðarsýn í fræðslumálum hafa starfað fyrir Bæjarhrepp Sigurður Geirsson og Máni Laxdal, en fyrir Húnaþing vestra Karl Eggertsson, Oddur Sigurðsson og Gunnar Þorgeirsson. Í vinnuhópi um framtíðarsýn í annarri þjónustu og skipulagsmálum hafa starfað fyrir Bæjarhrepp Jóhann Ragnarsson, Guðný Þorsteinsdóttir og Kristín G. Jónsdóttir, en fyrir Húnaþing vestra Þorvaldur Böðvarsson, Stefán Böðvarsson og Jón Óskar Pétursson. Einnig var ráðinn verkefnisstjóri fyrir verkefnið Garðar Jónsson hjá Glax-Viðskiptaráðgjöf.  
 
Í lok júní voru haldnir 2 kynningafundir, annar í Grunnskólanum á Borðeyri og hinn á Hvammstanga. Þar var afrakstur vinnu hópanna kynntur og leitað eftir tillögum og frekari áherslum frá fundarmönnum. Þokkaleg fundarsókn var á Borðeyri og nokkrar umræður. Kom meðal annars fram að margt þarf að samræma milli þessara sveitarfélaga ef af sameiningu verður.
Nokkra athygli vöktu tillögur fræðslunefndar um að reka áfram sjálfstæðan skóla á Borðeyri með eigin skólastjóra. Fundarmenn fýsti einnig að vita hvernig fjármálum sameinaðs sveitarfélags yrði háttað, hvernig sveitarfélagið raunverulega stæði fjárhagslega eftir sameiningu og í náinni framtíð, ef af sameiningu yrði. Þar skiptir miklu hvernig framlög úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga koma til með að líta út. Upplýsingar um þetta voru ekki fyrir hendi á þessum fundi, en væntanlega verður búið að fá þau mál á hreint þegar seinni kynningarfundurinn verður haldinn síðar í sumar eða haust.
Á fundinum kom fram að verulegur munur er á  álögum til fasteignaskatts milli þessara sveitafélaga. Í Bæjarhreppi er A liður fasteignagjalda (íbúðarhús, útihús í sveitum o.fl.) 0,29%, en í Húnaþing vestra 0.4%, en á B lið (fyrirtæki o.fl.) er munurinn enn meiri. Þar er Bæjarhreppur með 0,7%, en Húnaþing vestra með 1,3%. Tillögur voru um að jafna þetta út á fimm til tíu árum, en menn voru ekki sammála um hvort sú leið væri fær. Síðar kom í ljós samkvæmt lögfræðiáliti frá Félagsmálaráðuneytinu að þetta gengur ekki. Eins er Bæjarhreppur ekki með fullnýtta útsvarsprósentu.
Ljóst er að ekkert getur verið fast í hendi í dag um hvernig sameinað sveitafélag kemur til með að líta út eftir sameiningu ef af verður, en eins og áður sagði eiga hóparnir að reyna að nálgast það eins og það er framast hægt og leggja svo hugmyndir sínar fram  til að hinn almenni íbúi geti hugsanlega gert sér einhverja hugmynd um sameinað sveitafélag. Að loknum fundi var öllum fundarmönnum boðið upp á kaffi og með því.
 
Hægt er að nálgast upplýsingar um undirbúning sameiningarkosninganna á http://hunathing.is/default.asp?doc=sameining og þar má einnig finna fundargerðir samstarfsnefnda hreppanna.

Guðný Þorsteinsdóttir formaður samstarfsnefdar um sameiningu sveitafélagana setur Borðeyrarfundinn

Skúli Þórðarson formaður nefndar um stjórnsýslu og fjármál

Sigurður Geirsson formaður nefndar um fræðslumál

Þorvaldur Böðvarsson formaður nefndar um aðra þjónustu og skipulagsmál

Heimir Ágústsson fundarstjóri – Ljósm. Sveinn Karlsson