19/09/2024

Sameining Búnaðarsambanda?

Nú eru hafnar viðræður milli stjórna búnaðar-sambandanna við Húnaflóa þ.e. Búnaðarsambands A.-Hún., V.-Hún. og Strandamanna hvort skynsamlegt geti verið að sameina þessi búnaðarsambönd, en ályktun um slíka skoðun var samþykkt í fyrra á aðalfundum sambandanna í V.-Hún. og á Ströndum. Frá árinu 2002 hafa þessi þrjú búnaðarsambönd rekið sameiginlega leiðbeiningaþjónustu undir merkjum “Ráðunautaþjónustu Húnaþings og Stranda” og hefur sú samvinna gengið vel.

Nú finnst mönnum tímabært að skoða hvort sameining Búnaðarsambandanna sé rökrétt og vænlegt skref í þróuninni. Helst er þá horft til þess að einfalda “stoðkerfið” eins og bændur hafa lagt ríka áherslu á á undanförnum árum og samhliða því að ná fram ákveðinni hagræðingu í rekstri, en jafnframt aukinni skilvirkni með stofnun slíkra heildarsamtaka.

Stefnt er að því að vinna málið nokuð hratt og ljúka viðræðum í febrúar-mars þannig að hægt sé að leggja tillögur um sameiningu fyrir aðalfundi búnaðarsambandanna í vor ef niðurstöður viðræðna leiða í ljós að þessi sameining geti verið vænlegur kostur.