26/04/2024

Börn hjálpa börnum

Söfnunin Börn hjálpa börnum 2008 hófst þann 1. febrúar á Bessastöðum þegar forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, setti söfnunina formlega af stað með því að láta framlag sitt í söfnunarbauk skólabarna í Reykjavík. Söfnunin Börn hjálpa börnum er árlegt söfnunarátak ABC barnahjálpar sem er
nú 20 ára. Nemendur í 4. bekk í Grunnskólanum á Hólmavík ætla nú að leggja sitt af mörkum og taka þátt í verkefninu með því að safna fé í söfnunarbauka sem þau fengu frá ABC barnahjálp.

Nemendur 4. bekkjar á Hólmavík sinna þessu verkefni undir leiðsögn umsjónarkennara síns Hildar Guðjónsdóttur og hafa hlotið ýmsa fræðslu um ABC barnahjálp og horft á myndband um verkefni þeirra á síðustu árum. Fyrir söfnunarféð sem safnast í ár er áætlað að byggja heimavist og skóla á nýja landinu í Pakistan auk heimilis fyrir götubörn í Kenýa.

Á næstu dögum munu börnin ganga í hús með merkta og númeraða söfnunarbauka og mun allt fé sem safnast renna til ABC barnahjálpar. Fólk er því beðið að taka vel á móti nemendum 4. bekkjar á Hólmavík og leggja sitt af mörkum til hjálpar börnum í Pakistan og Kenýa.

 

4. bekkur með baukana sína