12/09/2024

Rjúpnaveiði í Skjaldfannadal kærð

Frá því var greint í Svæðisútvarpi Vestfjarða að veiðiþjófar hafi um síðustu helgi farið um í Skjaldfannadal við Djúp á vélsleðum og skotið rjúpu án leyfis landeigenda. Einnig er ólöglegt að elta rjúpuna uppi á vélknúnum ökutækjum. Indriði Aðalsteinsson bóndi á Skjaldfönn segir að veiðiþjófnaðurinn hafi verið ósvífinn og þeir hafi farið um og skotið rjúpu á milli bæja í Skjaldfannadal og einnig farið um land Ármúla. Haft var samband við lögregluna á Hólmavík, segir Indriði, sem hafði tal af mönnunum, en afli og veiðarfæri hefðu þó ekki verið gerð upptæk, líklega vegna þess að kæra lá ekki fyrir. Málið verður hins vegar örugglega kært að sögn Indriða.

Á Ströndum og við Djúp eru öll lönd eignarlönd og enginn almenningur eða afréttur þar sem menn mega skjóta rjúpu án leyfis.