12/09/2024

Rífa á slökkvistöðina og vatnstankinn

Í tilkynningu frá Strandabyggð er óskað eftir tilboðum í niðurrif á gömlu slökkvistöðinni við Kópnesbraut á Hólmavík og vatnstankinum fyrir ofan kirkju. Brjóta á mannvirkin niður og flytja á urðunarstað og er miðað við að verklok séu 1. desember næstkomandi. Tilboðum á hins vegar að skila á skrifstofu Strandabyggðar fyrir 8. nóvember 2006 og þar eru einnig gefnar allar nánari upplýsingar. 

Samkvæmt Hólmavíkurbók Óla E. Björnssonar var slökkvistöðin reist 1913 og var barnaskóli Hólmvíkinga fram til 1948. Bókasafn var í kompu inn af anddyrinu og í húsinu var lengi viðloðandi draugur sem kallaður var Löppin. Þar fóru fram auk skólahaldsins, skemmtanir, fundir og guðsþjónustur. Síðar var slökkvistöð í húsinu.

Vatnsgeymirinn var hins vegar byggður 1954 af Valdimar Guðmundssyni, en fram að því var vatnsskortur algengur á Hólmavík. Nýr vatnsmiðlunartankur ofan við Brandskjól leysti hann af hólmi um 1990.

Vatnstankurinn í baksýn

Slökkvistöðin