22/11/2024

Riða greinist í Hrútafirði

Frá því er sagt á mbl.is að riða er komin upp á bænum Brautarholti í austanverðum Hrútafirði, Húnavatnssýslu megin. Á vefnum segir: "Að sögn Halldórs Runólfssonar, yfirdýralæknis er þetta mikið áfall fyrir ábúendur og mjög alvarlegt þar sem ekki hefur áður greinst riða í þessu hólfi áður, svo kölluðu Miðfjarðarhólfi sem nær frá Miðfjarðará og vestur fyrir Hrútafjörð þar sem Vestfjarðahólf tekur við. 300 fjár eru á bænum og þarf að slátra því öllu, að sögn Halldórs."


Áfram segir á mbl.is:

"Riðan fannst í einni kind á bænum Brautarholti sem er austan Hrútafjarðar, gegnt Borðeyri, sem hafði hegðað sér undarlega og óskaði bóndinn eftir því að héraðsdýralæknir skoðaði hana. Þegar kindin drapst var tekið sýni úr henni og sent í rannsókn. Kom þá í ljós að um riðu var að ræða af NOR 98 afbrigði. Að sögn Halldórs hefur það afbrigði tvisvar greinst á Íslandi en í báðum tilvikum í sauðfé á Suðurlandi.

Að sögn Halldórs stendur nú yfir almennur bændafundur á Laugabakka í Miðfirði þar sem verið er að fara yfir þessi mál en kanna þarf hvort smit hafi borist á fleiri bæi við Hrútafjörð sem eru innan hólfsins."