22/12/2024

Rafhlöður mega ekki fara í ruslið

UmhverfishorniðÚrvinnslusjóður hefur sett af stað kynningarátak vegna söfnunar á ónýtum rafhlöðum til úrvinnslu. Markmið átaksins er að fá fleiri til að safna og skila notuðum rafhlöðum, auka vitund almennings um mikilvægi þess að rafhlöðum sé skilað og vekja athygli á að einfalt sé að losna við þær. Þátttakendur í kynningarátakinu ásamt Úrvinnslusjóði eru Olís, Efnamóttakan, Gámaþjónustan og Hringrás. Árið 2004 var aðeins 18% rafhlaðna skilað til úrvinnslu og ári seinna, 2005, var hlutfallið komið í 21%.

Samkvæmt könnun sem Capacent gerði fyrir Úrvinnslusjóð safna 22% landsmanna rafhlöðum til úrvinnslu. Nýleg rafhlöðutilskipun Evrópusambandsins sem verður innleidd á Íslandi innan tíðar kveður á um að skilahlutfall rafhlaðna skuli vera komið í 25% á árinu 2012 og 45% árið 2016. Hér er því verk að vinna.

Af þeim 161,5 tonnum rafhlaðna sem flutt voru inn til landsins á árinu 2005 var aðeins rúmlega 37 tonnum skilað. Þetta eru ekki nema 21% af öllum seldum rafhlöðum hér á landi. Þetta þýðir að hvorki meira né minna en rúm 124 tonn af rafhlöðum hafa farið beint í ruslið og því verið urðuð með öðru sorpi.

Rafhlöður eiga ekki að fara í ruslið heldur á að skila þeim til úrvinnslu. Það er í raun sáraeinfalt og nokkrar leiðir í boði. Hægt er að skila inn ónýtum rafhlöðum á bensínstöðvum, m.a. hjá Olís, og söfnunarstöðvum sveitarfélaga um land allt, auk þess sem hægt er að setja þær í endurvinnslutunnur fyrir flokkað heimilissorp. Á vef Úrvinnslusjóðs, www.urvinnslusjodur.is, er hægt að nálgast upplýsingar um staðsetningu söfnunarstöðva á landinu öllu. Þar er einnig að finna spurningar og svör um rafhlöður þar sem fróðleiksfúsir geta aflað sér nánari upplýsinga um innihald þeirra, flokkun og áhrif spilliefna á umhverfið. Sameiginleg táknmynd átaksins eru teiknimyndafígúrurnar Raffa og Batti sem prýða allt kynningarefni þess.

Rafhlöðum er fargað eða eytt á viðurkenndan hátt hjá aðilum sem hafa starfsleyfi til þess. Frá söfnunarstöðvunum eru rafhlöðurnar fluttar til Efnamóttökunnar eða Hringrásar þar sem þær eru flokkaðar. Hluti þeirra er urðaður, þ.e. þær sem ekki innihalda spilliefni. Rafhlöður sem innihalda spilliefni eru mjög skaðlegar fólki og umhverfi og eru þær sendar í háhitabrennslu til viðurkennds eyðingaraðila í Danmörku. Þar er hitinn sem myndast við brennsluna nýttur til hvort tveggja framleiðslu rafmagns og hitunar vatns sem er notað til húshitunar hjá sveitarfélaginu Nyborg.