25/04/2024

Rækjumyndir óskast

Nemendur Grunnskólans á Hólmavík leita nú að rækjumyndum í tengslum við uppfærslu á rækjuvef sínum. Eins og Strandamenn muna vann vefurinn til verðlauna í samkeppni um sjávarútvegsvef síðast liðið haust. Verðlaunin hafa nýst vel til kennslu í upplýsingatækni og nú hefur einn hópurinn verið að undirbúa uppfærslu á vefnum. Búast má við að uppfærslan standi út næsta mánuð og þá fari endurbættur vefur í loftið. Til stendur að yfirfara skipulega útlit og efnislegt innihald vefsins og gera úrbætur á hvoru tveggja. Helsta nýjungin á vefnum verður, ef vel gengur að safna, öflugt myndasafn. Myndirnar þurfa alls ekki að vera gamlar og mega vera af hverju því sem tengist rækjuvinnslu Hólmadrangs síðustu fjörtíu árin eða rækjuveiðum. Þegar hefur borist vilyrði fyrir myndbandsefni, en slíkt er einnig vel þegið. Þeir sem geta lagt krökkunum lið eru beðnir um að hafa samband við Kristínu S. Einarsdóttur kennara í síma 8673164 eða tölvupósti á netfangið stina@holmavik.is.