10/12/2024

Óstöðugt netsamband í dreifbýli á Ströndum

580-kollafjordur-trollin

Síðustu misseri hefur netsamband í gegnum 3G senda verið óstöðugt í dreifbýlinu víða á Ströndum. Við Steingrímsfjörð eru til dæmis sífelldir hnökrar á sambandinu sem dettur út í tíma og ótíma og hefur gert allt frá síðustu áramótum. Slæmskan í sambandinu hefur þó átt sínar hæðir og lægðir, en nú upp á síðkastið hefur tengingin verið afleit og samband frá ráter að sendi dettur út oft á hverri klukkustund og stundum nokkrar mínútur í senn. Samkvæmt upplýsingum frá Símanum stendur þetta ástand ekki til bóta næstu vikur þar sem ekkert er fyrirhugað að gera í málinu.

Þó er stefnan að setja í framtíðinni upp nýjan og öflugri sendi við Steingrímsfjörð, en tímarammi fyrir þær umbætur hefur ekki verið ákveðinn og allt ferlið í sambandið við uppsetninguna eftir, þar á meðal ákvörðun um staðsetningu sendisins. Sá sem til svara varð hjá símanum hvatti ritstjóra strandir.saudfjarsetur.is til að fylgjast með því hjá fyrirtækinu næstu mánuði hvort tímaramminn við verkefnið yrði ákveðinn og hver hann yrði.