16/06/2024

8 manna úrslit í Idol

Hvaða laga skyldi Heiða syngja í kvöld? - ljosm. Idol.isÍ kvöld fara fram átta manna úrslit í Idol stjörnuleitinni. Heiða Ólafs frá Hólmavík og hinir keppendurnir sjö þurfa í kvöld að flytja lög eftir Sálina hans Jóns míns. Gestadómari verður Stefán Hilmarsson. Það er mikill spenningur á Ströndum fyrir Idolinu, ekki síst vegna frábærrar frammistöðu Heiðu í keppninni.

Heiða hefur komið fram þrisvar sinnum í Idolinu í vetur. Þann 10. desember í 32 manna úrslitum söng hún lagið Dimmar rósir með Töturum, í 10 manna úrslitum þann 14. janúar söng hún Angle með Aretha Franklin og um síðustu helgi í 9 manna úrslitunum tók hún diskósmellinn Hotstuff með hinni einu sönnu Donnu Summer. Hvaða lag með Sálinni hans Jóns míns hún hefur valið fyrir keppnina í kvöld kemur í ljós þegar hún stígur fram á sviðið.

Idol-Stjörnuleit hefst klukkan 20:30 og er sýnd beint úr Vetrargarðinum í Smáralind á Stöð 2.