13/12/2024

Ólympíuleikar trúbadora koma við á Ströndum

Frá DjúpavíkDagana 24. júní til 18. júlí nk. munu eiga sér stað svonefndir Ólympíuleikar trúbadora á Íslandi, en þá munu fjögur söngvaskáld frá þremur löndum leggja leið sína hringinn kringum landið og leika á hinum ýmsu þétt- og dreifbýlisstöðum. Tónlistarmennirnir sem um ræðir eru Svavar Knútur, Owls of the Swamp (Ástralía), Samantha Burke (Ástralía) og Torben Stock (Þýskaland). Á Ströndum munu trúbadorarnir heimsækja Djúpavík 29. júní og Galdrasýningu á Ströndum 2. júlí og halda þar tónleika.

Ferðalagið er hluti af svokölluðu alþjóðlegu samsæri trúbadora, sem felst í því að söngvaskáld frá ýmsum löndum hjálpast að við að skipuleggja tónleikaferðalög, útvega gistingu standa í kynningu og halda utan um tengsl við fjölmiðla. Þessi aðferð bætir alla möguleika erlendra söngvaskálda til að ná tengslum við nýja markaði og einnig að kynnast nýjum löndum, menningu og fólki á auðveldan og aðgengilegan hátt. Með þessu er ætlunin að skapa og rækta upp netverk tónlistarfólks.

Owls of the Swamp
Peter Ühlenbruch, betur þekktur í heimalandi sínu sem Owls of the swamp, er þýskættaður ástrali, búsettur í Melbourne. Hann gaf á síðasta ári út hljómplötuna Smoky Bay, sem fjallar um dvöl hans á Íslandi og upplifun hans af löngum björtum nóttum með tilheyrandi rómantík og ástarbrima og vaxandi skammdegi með tilheyrandi þjökun hugans. Þá má þar heyra lýsingu hans á Gullfossi og skelfilegri bílferð yfir Holtavörðuheiði í snjóbyl. Platan fékk mjög góðar viðtökur í Ástralíu og góða dóma í tónlistartímaritum þarlendis. Peter er mikill Íslandsvinur og finnst fátt skemmtilegra en að heimsækja landið. Í fyrstu heimsókn sinni til Íslands hitti hann Svavar Knút, íslenskan trúbador og tókst með þeim mikil vinátta, sem leiddi til þess samstarfs sem seinna varð nefnt The International Troubadour Conspiracy eða hið alþjóðlega trúbadorasamsæri. Pete skipulagði m.a. tónleikaferðalag Svavars Knúts til Ástralíu síðasta sumar.

Sam Burke
Sam Burke er áströlsk trúbatrix sem gaf út sína fyrstu hljómplötu "Sam Burke and the Wifeys" í apríl í fyrra. Platan var hljómplata vikunnar á stöðinni PBS FM í Melbourne þegar hún kom út og hefur hlotið mikla spilun í Ástralska ríkisútvarpinu og mörgum smærri útvarpsstöðvum. Sam hefur verið að hasla sér völl sem ein af rísandi stjörnum í þjóðlagatónlistargeiranum í Ástralíu og fer reglulega í tónleikaferðalög bæði þar í landi sem og á Nýja Sjálandi. Ferð hennar um Ísland er hluti af ferðalagi hennar um Evrópu, Kanada og Bandaríkin.

Torben Stock
Torben Stock er þýskur trúbador, búsettur í Hamborg. Hann heimsótti Ísland árið 2006 ásamt Peter Ühlenbruch og héldu þeir nokkra tónleika ásamt Svavari Knúti. Torben gaf á síðasta ári út plötuna Troubadour, þar sem m.a. má finna lögin Rocket og Sad movie song. Torben er menntaður í tónlistarmeðferð og vinnur með börnum. Hann hefur silkimjúka baritónrödd sem ber vitni miklu næmi og lipurð í túlkun. Þá bar Torben Sigur úr býtum í þýskri söngvaskáldakeppni árið 2007.

Svavar Knútur
Svavar Knútur trúbador er skipuleggjandi Ólympíuleika trúbadora og Melodica festivalsins á Íslandi. Hann var sigurvegari trúbadorakeppni Rásar 2 árið 2005 og er einnig forsöngvari hljómsveitarinnar Hrauns. Hraun hefur nú gefið út tvær hljómplötur, I can’t believe it’s not happiness og Silent Treatment, þar sem genginn er hlykkjóttur vegurinn frá eymd til endurlausnar. Svavar Knútur hefur leikið á tónleikum, bæði einn og með hljómsveit sinni víða um land, enda er hann ættaður af öllum helstu landshornum.

Tónleikaferðalagið hefst á Grasrótarstaðnum Kaffi Hljómalind með tónleikum þar sem nokkrir gestir slá á létta strengi með trúbadorunum, en því lýkur á annars konar grasrótarstað, Kaffi Babalú á Skólavörðustíg 18. júlí. Yfirlýst markmið ferðalagsins er að sýna tónlistarmönnunum allt það fegursta sem Ísland hefur að bjóða, kynna þá fyrir þjóðinni og náttúru landsins og um leið að færa Íslendingum eitthvað nýtt og fallegt.. Það vill brenna við tónleikaferðir að þær séu ekkert nema keyrsla, en hér verður upplifuninni sjálfri gert hátt undir höfði og mun hópurinn fara á marga fallega og afskekkta staði í leiðinni.

Söngvasveinarnir og söngmeyjan hlakka til að mæta Íslendingum og njóta gestrisni landsbyggðarinnar.

Tónleikastaðir eru eftirfarandi:

Fyrsti leggur: Svavar Knútur, Owls of the swamp, Sam Burke og Torben Stock
24. júní – Kaffi Hljómalind – Reykjavík kl. 20
25. júní – Landnámssetrið í Borgarnesi kl. 20
26. júní – Kaffi 59 Grundarfirði kl. 21
27. júní – Tálknafjarðarirkja kl. 20
28. júní – Edinborgarhúsið Ísafirði kl. 21 ásamt Mysterious Mörtu og hljómsveitinni Hraun

Annar leggur: Svavar Knútur, Owls of the swamp og Sam Burke
29. júní – Hótel Djúpavík – Djúpavík kl. 20
2. júlí – Galdrasýningin á Ströndum kl. 15
2. júlí – Síróp Hvammstanga kl. 20
3. júlí – Höfðaborg Hofsósi kl. 20
4. júlí – Grána – Siglufirði kl. 23.00 – hluti af Þjóðlagahátíð á Siglufirði.
5. júlí – Græni hatturinn – Akureyri kl. 22.00 ásamt hljómsveitinni Hraun
6. júlí – Félagsheimilð í Grímsey kl. 20.

Þriðji leggur – Svavar Knútur og Owls of the swamp ásamt gestum
9. júlí – Gamli Baukur – Húsavík kl. 21
10. júlí – Hótel Aldan – Seyðisfirði kl. 21
11. júlí – Langabúð – Djúpavogi kl. 21 ásamt hljómsveitinni Hraun
12. júlí – Úlfaldinn – Mývatni ásamt hljómsveitinni Hraun
14. júlí – Rauða húsið – Eyrarbakka kl. 21.
15. júlí – Paddy’s – Keflavík kl. 21
18. júlí – Kaffi Babalú – Reykjavík kl. 21 ásamt Mike Pollock ofl.