26/12/2024

Ólögleg breyting á veglínu í Gautsdal?

Í Gautsdal í maí 2007 - ljósm. Björn SamúelssonNú hefur Reykhólahreppur fengið bréf frá Skipulagsstofnun um vegalagninguna í Gautsdal og var það tekið fyrir á hreppsnefndarfundi fyrr í desember. Í fundargerð hreppsnefndar kemur fram að bréf Skipulagsstofnunar staðfesti skoðun hreppsnefndar þess efnis að Vegagerð ríkisins hafi ekki farið að lögum um mat á umhverfisáhrifum vegna breytinga á legu Arnkötludalsvegar. Ekki er vitað hvað gerist næst í málinu.

Reykhólahreppur hafði áður gert athugasemdir við Vegagerðina vegna vegalagningar um Arnkötludal og Gautsdal og fundið að vinnubrögðum og vali á vegstæði. Þá krafðist hreppsnefnd skýringa á mun sem er á veglínunni eins og hún er nú og þeirrar línu sem kynnt var í umhverfismati og framkvæmdaleyfi var gefið fyrir. Í framhaldi af þessu fékkst svarbréf frá Vegagerðinni sem tekið var fyrir á hreppsnefndarfundi í september. Varð niðurstaða hreppsnefndar eftir að hafa kynnt sér svarbréfið að óska eftir áliti Skipulagsstofnunar ríksins á því hvort framkvæmdir séu í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum.

Beggja vegna Arnkötludals eru kunnugir að nokkru ósáttir við vegstæðið í Gautsdal og þær breytingar sem gerðar hafa verið á því frá upphaflegri hönnun. Sérstaklega finnst heimamönnum aðfinnsluvert hvernig vegurinn hefur verið færður út á fossbrún í Gautsdal, frá því sem var upphaflega kynnt. Telja menn að ef vegurinn verði þar sem hönnun Vegagerðarinnar gerir ráð fyrir og nýr vegur hefur nú verið lagður geti skapast slysahætta, algjörlega að óþörfu. Fossinn eigi til að fjúka upp af fossbrúninni í roki og þá geti skapast hálka og svellbunkar á öllu svæðinu í kring.