22/12/2024

Ókeypis á tónleika kórs Menntaskólans við Hamrahlíð

 Kór Menntaskólans við Hamrahlíð mætir á Hólmavík um helgina og heldur tónleika í Hólmavíkurkirkju. Tónleikarnir fara fram sunnudagskvöldið 27. mars og hefjast kl. 20:00. Aðgangur er ókeypis og eru Strandamenn hvattir til að láta ekki þennan mikla menningarviðburð fram hjá sér fara. Efnisskrá kórsins er afar fjölbreytt með íslenskum og erlendum tónverkum eftir ólíka höfunda. Þetta er í fyrsta sinn sem kór Menntaskólans við Hamrahlíð heimsækir Strandir, en hann er skipaður 87 nemendum á aldrinum 16-20 ára.

Á efnisskrá kórsins eru íslensk og erlend tónverk m. a. eftir J. S. Bach, G. F. Händel, Béla Bartók, Jón Þórarinsson, Jón Ásgeirsson, Atla Heimi Sveinsson og Þorkel Sigurbjörnsson auk þjóðlaga frá ýmsum löndum. Hljóðfæraleikarar eru meðal kórfélaga.

Stjórnandi kórsins í ferðinni og allt frá stofnun hans er Þorgerður Ingólfsdóttir. Fararstjórar í ferð kórsins eru rektor Menntaskólans við Hamrahlíð, Lárus H. Bjarnason og Jóhann Ingólfsson kennari.

Þá hefur kórinn einnig boðið nemendum við Grunnskólann á Hólmavík á ókeypis tónleika kl. 10:00 mánudaginn 28. mars.