23/12/2024

Óheppnir portúgalir fengu á annan tug fjarða

.Fjórir áhugasamir portúgalir um Galdrasýningu á Ströndum lögðu langa leið að baki þar til þeir komust loks að dyrum sýningarinnar í gær. Þeir hófu ferðina árla morguns í fyrradag frá Reykjavík til að skoða sýninguna og höfðu haft einhverjar fregnir af því að besta leiðin á Strandir væri að fara Dalina yfir í Reykhólasveit og þaðan yfir Tröllatunguheiði. Þegar þeir komu að rótum heiðarinnar þá ráku þeir augun í aðvörunarskilti í vegkantinum sem þeir skildu sem svo að bílar léttari en 5 tonn mættu alls ekki aka veginn.

Portúgalirnir gáfust ekki upp heldur drógu þeir upp landabréf og ákváðu í framhaldi af því að athuga hvort Þorskafjarðarheiðin væri ekki leiðin sem þeim hafði verið bent á. Þegar þeir komu að rótum þeirrar heiðar brá þeim heldur en ekki í brún þegar þeir sáu að keðju hafði verið komið fyrir við gatnamótin yfir veginn og allskyns viðvörunarskiltum, svo það var engu líkara en þeir væru komnir á jarðsprengjusvæði.

Portúgalirnir þorðu ekki fyrir nokkurn mun að stíga út úr jeppanum sem þeir höfðu tekið á leigu í borginni heldur snéru þeir við og óku hljóðlega í burt úr sveitinni og stefndu suður á bóginn á ný, til að finna einhverja aðra leið yfir á Strandir. Í Búðardal fengu hinir fræknu portúgalir leiðsögn yfir Laxárdalsheiðina en náðu að þeirra sögn aðeins of seint inn í galdraþorpið Hólmavík, því veitingastaðnum hafði verið lokað,  en fengu þó notalega gistingu hjá Nönnu og Hrólfi á Borgabraut að þeirra sögn.

Portúgalirnir fjórir, sem voru hjón að heimsækja börnin sín tvö sem stunda nám við Háskóla Íslands og voru með þeim í ferðinni voru afar ánægðir með heimsóknina á Galdrasýningu á Ströndum. Þau sögðust hiklaust leggja á sig annað sólarhringsferðalag fyrir þvílíka upplifun sem þau urðu fyrir á sýningunni, en galdramaður af Ströndum tók þau í örlitla lexíu um íslenska þjóðtrú og galdra. Þó svo að galdramaðurinn hafi nánast hrætt úr þeim líftóruna sem þó enn bærðist í brjóstum þeirra eftir langt og strangt ferðalag norður á Strandir. Portúgölunum kom það á óvart að enginn vissi fyrirfram hvað hver fengi marga firði á leið sinni á Strandir.

Að sögn galdramannsins ættu portúgalirnir að hafa fengið innan við tvo firði á leiðinni suður aftur, ef þeir hafa farið að ráðum hans.