14/09/2024

Áhrif Strandagaldurs yfir 20 milljónir á ári

Samkvæmt úrvinnslu úr gestakönnun sem gerð var á Galdrasýningu á Ströndum s.l. sumar, og Alexandra Hilf, nemi í hagfræði ferðamála vann fyrir Strandagaldur, hafa jákvæð ytri áhrif Galdrasýningar á Ströndum í sölu vöru og þjónustu á svæðinu síðasta sumar verið yfir 20 milljónir króna. Þetta er þó fremur varlega áætlað að sögn Alexöndru, en áhrifin eru eingöngu reiknuð miðað við áætlaða eyðslu þeirra gesta sem svöruðu því til í könnuninni að Galdrasýning á Ströndum hefði haft áhrif á þá ákvörðun þeirra að heimsækja Strandir.

Um það bil 35% sýningargesta svöruðu því til að verkefnið hefði haft áhrif á þá að heimsækja Strandir og miðað er við að þeir gestir hafi skapað tekjur í ferðaþjónustu á svæðinu (annarri en Galdrasýningunni sjálfri þ.e.) sem annars hefðu ekki skapast.
 
Áhrif á sölu gistingar
Ekki gistu öll þessi 35% gesta yfir nótt á svæðinu, en samkvæmt könnuninni gistu um 600 á hóteli eða gistiheimili, 600 á tjaldsvæðum og 200 manns keyptu ekki gistingu á svæðinu eða annarsstaðar. Miðað við að 600 manns hafi greitt að meðaltali 2.750 kr. fyrir gistinótt á hóteli eða gistiheimili og 600 manns greitt að meðaltali 500 kr fyrir tjaldsvæði þá kemur í ljós að samtals hafa þessi 35% gesta greitt krónur 1.950.000 kr. fyrir hverja nótt. Meðallengd gistitíma samkvæmt könnuninni er 1,5 nótt á mann, svo samtals voru áhrif verkefnisins á sölu gistingu á svæðinu kr. 2.925.000.
 
Áhrif á sölu matar og drykkjar
Samkvæmt könnuninni borðuðu 500 manns úr þessum hópi eina máltíð á veitingahúsi í heimsókninni og ætla má að þeir sömu hafi keypt morgunverð. Hinir 700 versluðu matvöru í matvöruverslun á svæðinu eða í sjoppu. Samkvæmt útreikningi Alexöndru þá hafa þeir gestir skilið eftir sig kr. 4.750.000 við kaup á mat og drykk sem skiptast svona:
500×5000 á veitingahúsi
500×1000 aðrar máltíðir
700×2500 verslun í matvörubúð eða sjoppu

Áhrif á sölu afþreyingar
Samkvæmt könnuninni nýtti um helmingur þessara gesta Galdrasýningarinnar sér tækifæri til að fara í sund og þriðjungur þeirra heimsótti aðrar sýningar eða söfn á svæðinu sem gerir samtals kr. 410.000 sem skiptast þannig:
700×250 kr í sund
470×500 kr í aðgangseyri

Áhrif á sölu bensíns og olíu
Nánast hver einasti þessara gesta svaraði því til að hann væri á einkabíl eða á bílaleigubíl og þurfti því að koma við á bensínstöðinni á Hólmavík. Ekki kemur fram á hve mörgum bílum samtals þessir gestir voru, en ef miðað er við að tveir ferðalangar séu saman í bíl og hafi keypt 30 lítra af bensíni á Hólmavík á 95 kr líterinn þá er verslun á bensíni samtals kr. tvær milljónir.

Reynslan sýnir að langflestir gestir ferðast með einum ferðafélaga eða allri fjölskyldunni svo gera má ráð fyrir að ytri áhrif Galdrasýningar á Ströndum á tekjur af ferðaþjónustu á svæðinu hafi verið vel yfir 20 milljónir króna síðasta sumar. Raunveruleg upphæð er þó að öllum líkindum talsvert hærri því inn í þessari talnakönnun er ekki gert ráð fyrir sölu á minjagripum né sölu á öðru en matvöru, gistingu og eldsneyti. Þessar tekjur inn á svæðið og margfeldisáhrifin sem af þeim stafa eru þannig umtalsverð.
 
Af þessu má sjá að ytri áhrif verkefna líkt og Galdrasýningar á Ströndum eru æði mikilvæg samfélaginu og skila margfaldlega tekjum til baka á skömmum tíma á við þá opinberu styrki sem þau njóta. Ávinningur samfélagsins og ríkisins af þessari eyðslu ferðamanna er umtalsverður, sérstaklega þegar haft er í huga að um 35% þeirra ferðamanna sem heimsóttu sýninguna voru erlendir ferðamenn sem skila gjaldeyristekjum inn í þjóðarbúið. Til samanburðar má nefna að tekjur Galdrasýningar á Ströndum af öllum sínum gestum af aðgöngumiða- og minjagripasölu losaði þrjár milljónir króna.

.
Alexandra Hilf naut sín vel á Ströndum síðasta sumar. Þarna er hún í fótabaði neðan við Goðafoss í Bjarnarfirði.

.
Húsnæði Galdrasýningar á Ströndum á Hólmavík
Ljósmyndir: Sigurður Atlason.