23/12/2024

Ofurhlaupari Íslands mætir í hamingjuhlaupið

 Einn af föstu punktum Hamingjudaga á Hólmavík síðustu ár er Hamingjuhlaupið, sem er skemmtihlaup um dali og fjöll, stokka og steina. Elstu menn trúa því að hver sá sem taki þátt í hlaupinu öðlist við það meiri hamingju heldur en sá sem sleppir því að hlaupa. Það stefnir í góða þátttöku í hlaupinu í ár, en frést hefur af allmörgum sem ætla að koma inn í hlaupið á mismunandi stigum þess, enda er alls engin skylda að hlaupa frá upphafi til enda. Einn af þeim sem munu stefna á þátttöku í hlaupinu er engin annar en ofurhlauparinn Gunnlaugur Júlíusson.

Gunnlaugur er fyrir löngu landsþekktur fyrir glæsta frammistöðu í ofurmaraþonhlaupum þar sem hann hefur oftar en ekki hlaupið mörg hundruð kílómetra í einu. Hlaupið hefst kl. 16:00 við Gröf í Bitrufirði og lýkur kl. 20:25 við hátíðarsvæðið á Hólmavík. Koma hlauparanna markar upphaf Hnallþóruhlaðborðs Hamingjudaga, en ekki verður snert á tertunum fyrr en allir eru komnir í mark.   

Þeir sem vilja hvetja hlauparana til dáða eða skokka með þeim frá ákveðnum stöðum geta skoðað tímatöflu hlaupsins með því að smella hér.