09/09/2024

Ofsaveður í Árneshreppi 1957

Nú eru liðnir nokkrir dagar síðan skemma við bæinn Fell í Kollafirði splundraðist í afar hvössu sunnanroki. Það þykja alltaf tíðindi þegar eitthvað fýkur á þennan hátt og Strandamenn hafa ekki farið varhluta af foktjóni í gegnum tíðina. Skemmst er að minnast ofsaveðra sem gengið hafa yfir svæðið nú í vetur, en í þeim hefur orðið talsvert tjón og skemmdir á mannvirkjum. Fyrir 50 árum voru svipuð læti í veðrinu og nú, þá sérstaklega í Árneshreppi. Þessu komst grúskari strandir.saudfjarsetur.is að þegar hann fann gamla frétt í Morgunblaðinu skrifaða af Regínu Thorarensen á Gjögri þann 31. janúar 1957. Eins og þar má sjá hefur mikið gengið á; skemmur, hlöður, bátar og þakplötur hafa fokið í veðrinu og rúður í íbúðarhúsum brotnað. Sem betur fer urðu ekki slys á fólki:

Á Ströndum urðu talsverðar skemmdir af veðurofsa
Gjögri, Strandasýslu, 31. janúar (1957)

Mjög hefur verið hvassviðrasamt hér nyrðra, það sem af er vetrinum, en snjólétt hefur verið til þessa þar til í gær og dag að alveg er jarðlaust. Hefur snjóað talsvert þessa tvo daga.

Tjón af veðurofsa
Dagana 12.-17. janúar var hér mikið hvassviðri. Komst veðurhæðin upp í 13 vindstig. Nokkrir skaðar hlutust af þessu veðri, þótt þeir kallist ekki alvarlegir. Mestir skaðar urðu á Reykjanesi. Þar fauk geymsluhús og hlaða sem var áföst við það, skemmdist mikið. Lítið fauk samt af heyi sem í hlöðunni var. Þá fauk þak af súrheystóft á Reykjanesi og plötur af fjárhúsþaki.

Bátur fauk
Á Gíslabala í Árneshreppi fauk hlaða, en lítið af heyi var í henni. Í Kjörvogi í sama hreppi fauk trillubátur til 25-30 metra, en skemmdist furðu lítið. Í Kjörvogi fuku einnig nokkrar plötur af íbúðarhúsþakinu. Annars staðar í hreppnum og víðar á Ströndum urðu smávegis tjón, svo sem að gluggar brotnuðu og þakplötur fuku af íbúðar- og peningshúsum.

– Regína.