22/12/2024

Óboðnir gestir um áramót

150-lusEitthvað mun um að Strandamenn hafa fengið óboðna gesti um áramótin. Þeir er um ræðir sækjast aðallega í hár gestgjafa, eru gráir að lit og örsmáir. Lús er sem kunnugt er afar smitandi og berst ört á milli manna. Nokkur tilfelli munu hafa greinst bæði í börnum og fullorðnum síðustu daga. Heilbrigðistofnunin á Hólmavík sendi frá sér dreifibréf á gamlársdagsmorgun eftir að lús hafði fundist í barni á grunnskólaaldri. Mælst er til að hár heimilisfólks sé kembt daglega í viku, en finnist lús í hári er hún meðhöndluð með þartilgerðu sjampói og dugir sú meðferð í viku.