22/12/2024

Nýtt starfsfólk í Grunnskólanum á Hólmavík

Óvenju mikið er af nýju starfsfólki við Grunnskólann á Hólmavík næstkomandi vetur, en skólinn verður formlega settur í Hólmavíkurkirkju föstudaginn 20. ágúst klukkan 12:00. Nýir skólastjórar halda um stjórnartauma, Bjarni Ómar Haraldsson er skólastjóri og Hildur Guðjónsdóttir aðstoðarskólastjóri, en þau hafa bæði kennt við skólann undanfarin ár. Kristján Sigurðsson aðstoðarskólastjóri er í ársleyfi en Victor Örn Victorsson fyrrverandi skólastjóri verður stundakennari í samfélagsfræði eldri bekkja.

Kolbeinn Skagfjörð Jósteinsson hefur verið ráðinn sem íþróttakennari við skólann og er einnig umsjónarkennari í 5. og 6. bekk á móti. Nokkuð er síðan menntaður íþróttakennari sinnti slíkri kennslu á Hólmavík. Þá hefur Kristjana Eysteinsdóttir verið ráðin sem leiðbeinandi við skólann og kennir 1.-2. bekk, en
hún lýkur námi um næstu áramót sem grunnskólakennari af yngra barna sviði.

Arnar S. Jónsson hefur verið ráðinn stundakennari við skólann og mun hann kenna tjáningu, tónmennt, lífsleikni og upplýsingatækni á unglingastigi. Arnar er að ljúka BA. prófi í tómstunda- og félagsmálafræðum
nú á haustönn. Arnar hyggst flétta þessar greinar saman og vinna m.a. að verkefnum tengdum kvikmyndun og hljóðvinnslu í upplýsingatækninni.

Anna Sólrún Kolbeinsdóttir hefur verið ráðin til kennslu við Tónskólann á Hólmavík til vors og mun m.a. leysa kennara af í fæðingarorlofi. Þá hafa Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir og Marsibil Freymóðsdóttir verið ráðnar stuðningsfulltrúar, Sigríður í 1. og 2. bekk og Marsibil í 7. bekk.