22/12/2024

Nýtt gönguleiðakort

Ferðamálasamtök Vestfjarða stefna á útgáfu nýs gönguleiðakorts af Vestfjörðum á komandi árum og Upplýsingamiðstöðin á Hólmavík mun aðstoða með yfirlestur á korti af Ströndum. Á kortagrunninum frá Landmælingum eru fjölmörg örnefni, bæir, firðir og víkur. Við fyrstu skoðun virðist vera nokkuð af villum á kortinu og því hefur verið ákveðið að leita til kunnugra heimamanna með yfirlestur. Svæðið sem lesa þarf yfir á Ströndum fyrir útgáfuna næsta vor nær frá Bitrufirði norður í Reykjarfjörð syðri. Þeir sem hafa áhuga á að leggja verkefninu lið eru hvattir til að kíkja á miðstöðina og fara yfir kortin, merkja inn athugasemdir og leiðrétta villur.

Upplýsingamiðstöðin er opin frá 9:00-20:00 alla daga vikunnar til 31. ágúst nk. og öllum yfirlesurum er lofað ókeypis kaffi og kleinu fyrir framlagið.