13/09/2024

Nýtt Búnaðarsamband

Á framhaldsaðalfundi Ráðanautaþjónustu Húnaþings og Stranda sem haldinn var að Stað í Hrútafirði þann 30. nóvember var samþykkt að stofna Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda skammstafað BHS. Samþykktin felur það í sér að Búnaðarsamband A.-Hún. (BSAH), Búnaðarsamband V.-Hún. (BSVH) og Búnaðarsamband Strandamanna (BSS), sameinast þann 1. janúar 2007. Sameiningin hafði áður verið samþykkt á öllum aðalfundum búnaðarsambandanna. Þann 1. janúar mun nýja Búnaðarsambandið ennfremur yfirtaka öll verkefni Ráðanautaþjónustu Húnaþings og Stranda.


Fram til fyrsta aðalfundar í júní 2007 mun núverandi stjórn RHS stýra Búnaðarsambandi Húnaþings og Stranda. Formaður stjórnar Jón Gíslason kvaðst vona að stofnun nýja búnaðarsambandssins yrði félögunum til góðs. Sambandið myndi efla starf á stéttarlegum grunni og halda áfram því góða faglega starfi sem Ráðanautaþjónustan hefði byggt upp.