22/12/2024

Nýr undirskriftarlisti fer af stað

Áhugafólk um varðveislu gamla barnaskólans á Hólmavík hefur að nýju hafið söfnun undirskrifta. Að þessu sinni með bón til sveitarstjórnar Strandabyggðar að vernda húsið. Fyrir tveimur dögum var afhentur undirskriftarlisti á sveitarstjórnarskrifstofuna með ósk um að fresta niðurrifi á húsinu fram yfir 30. nóvember, en þá tekur Húsafriðunarnefnd ríkisins ákvörðun um hvort húsið skuli friðað. Meirihluti sveitarstjórnar samþykkti góðfúslega þá bón. Að sögn aðstandenda söfnunarinnar er tilgangur þessarar undirskriftarsöfnunar að hvetja til þess að sveitarstjórn taki ákvörðun um að hlífa húsinu og stuðli þannig að því að sátt náist um skipulag svæðisins og að allir Hólmvíkingar komist frá málinu með reisn.

Sérstakri bók með yfirlýsingunni hefur verið komið fyrir við gamla barnaskólann þar sem allir þeir sem vilja leggja sáttinni lið geta skrifað nöfnin sín. Einnig verður gengið í hús með undirskriftarlistann á næstu dögum.

Texti yfirlýsingarinnar er eftirfarandi:

Ósk um verndun

Við undirrituð óskum eftir því við sveitarstjórn Strandabyggðar að gamli barnaskólinn við Kópnesbraut verði verndaður í framtíðinni, enda hefur húsið menningarsögulegt gildi og er hluti af heildarmynd Hólmavíkur. Við bendum á að með endurbyggingu gamalla húsa geta skapast mikil tækifæri, bæði til búsetu og atvinnureksturs, eins og mörg dæmi sýna nú þegar á Hólmavík.

Við álítum að verndun hússins og lagfæringar á Bröttugötu geti farið saman.