22/12/2024

Ný Hvalsárrétt tekin í notkun

Réttað var í nýrri Hvalsárrétt síðastliðinn laugardag. Leitarmenn komu af fjalli um hálf þrjúleytið, en vel gekk að smala fé til byggða, hjálpaði þar svöl norðanáttin. Fé af fjalli var með fleira móti í þetta sinn og er talið að um þrjú þúsund fjár hafi verið réttað í nýrri rétt. Leitarsvæðið sem leitað er til Hvalsárréttar nær frá Snjófannaás í suðri að Heydalsseli í norðri. Á þessu svæði eru leitaðar þrjár eyðijarðir, hluti Heydalsels, Stóra Hvalsá og hluti Hrafnadals, en þessar jarðir ásamt Miðhúsum og Gilhaga eru í eigu Hjarðhaga. Hjarðhagi er sjálfseignarstofnun sem stofnuð var um allar jarðir Bæjarhrepps á síðastliðnu ári.

Byrjað var að rétta um fjögurleytið. Ekki var um formlega vígslu á réttinni að ræða, heldur var bara gengið til verka eins og alltaf hefur verið. Venjan er sú í Hvalsárrétt að ekki er byrjað að rétta fyrr en leitarmenn hafa fengið sér kaffi og rætt málin. Fyrsta kindin í réttina mun samkvæmt meðfylgjandi myndum vera ærin París frá Ragnari bónda á Kollsá, kannski hefur meistari Ragnar verið búin að æfa hana.

Fjöldi fólks mætti í réttirnar, bæði til að taka beinan þátt og til að sýna sig og sjá aðra. Hreppsnefnd Bæjarhrepps bauð öllum upp á kaffiveislu í tilefni dagsins og sá Kvenfélagið Iðunn um kræsingarnar.
Slegið var upp stóru samkomutjaldi til að þjóna öllum sem best, en kaffiskúrinn sem kvenfélagið á við Hvalsárrétt er að verða frekar lítill til að taka á móti öllum þeim gestum sem sækja orðið réttir á Hvalsá.

Eins og áður sagði, var ný rétt tekin í notkun við Hvalsá þennan dag. Guðmundur Skúlason Guðlaugsvík var ráðinn til að rífa þá gömlu síðastliðið vor og smíði nýrrar réttar boðin út. Hannes Hilmarsson á Kolbeinsá var með lægsta boð og hefur hann verið verktakinn að nýju réttinni, en Ragnar Pálmason byggingarmeistarinn. Þeir sem komu að smíðinni voru Ragnar Pálmason Kollsá, Hannes Hilmarsson Kolbeinsá, Hilmar Guðmundsson Kolbeinsá, Jón Pálmar Ragnarsson Kollsá, Auðunn Ingi Ragnarsson Kollsá, Adam Levý Karlsson Kolbeinsá og Heiðar Skúlason Ljótunnarstöðum sem kom að jarðvegsvinnu. Réttin er öll hin glæsilegasta þar sem vandað hefur verið til verka.

Kvenfélagið Iðunn færði réttinni að gjöf boga yfir innganginn. Skemmtileg nýjung í réttarsmíði er að hver dilkur er merktur, ekki bara bæjarnafninu heldur líka því bæjarnúmeri sem hver ær er merkt með. Þetta auðveldar þeim sem koma til að hjálpa við dráttinn, en þekkja ekki mörkin. Skilti er svo við fólksinngang réttarinnar þar sem einnig má sjá hvernig númerin skipast á bæina. 

Það óvenjulega við réttina er að í miðjum almenningnum er stór tréhnyðja sem stendur þar upp á endann. Að sögn Ragnars þá virtist smiðunum hún hafa verið teiknuð þarna og þess vegna komið þar fyrir, en þegar betur var að gáð þá hefði reynst um kaffiblett á teikningunni að ræða. En hnyðjan fékk að standa og eins og myndirnar sýna þá þjónar hún sínum tilgangi.

Miklu fleiri myndir má finna á vefsíðunni http://sgverk.com/gallery/album21.

  Hvalsárrétt

landbunadur/580-hvalsarrett3.jpg

landbunadur/580-hvalsarrett4.jpg

landbunadur/580-hvalsarrett5.jpg

Í Hvalsárrétt 2007 – Ljósm. Sveinn Karlsson