03/05/2024

Finnbogastaðaskóli í Trékyllisvík starfar áfram

Finnbogastaðaskóli

Í frétt á ruv.is þann 14. júlí, kemur fram að Finnbogastaðaskóli, grunnskólinn í Árneshreppi á Ströndum, mun halda áfram starfsemi sinni á næsta skólaári. Skólastarfið var í nokkurri óvissu þar sem það leit um tíma út fyrir að einungis einn nemandi yrði eftir í skólanum næsta vetur. Þetta hefur breyst og Árneshreppur auglýsti eftir nýjum skólastjóra fyrir skömmu og var sérstaklega óskað eftir umsóknum frá fólki með börn á skólaaldri. Umsóknarfrestur rann út á mánudaginn og er haft eftir Evu Sigurbjörnsdóttur oddvita Árneshrepps að þónokkrar umsóknir hafi borist og að farið verði yfir umsóknir á næstu dögum.