22/11/2024

Ný göngukort frá Ferðamálasamtökum Vestfjarða

Á dögunum afhentu Sævar Pálsson formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða og Björn Samúelsson formaður Ferðamálafélags Reykhóla og Dala Kristjáni Möller samgönguráðherra ný göngukort sem ná yfir suðurhluta Vestfjarða, Strandir sunnan Hólmavíkur og Dali. Um er að ræða fjögur kort og fást þau á sérstöku tilboðsverði á Upplýsingamiðstöðinni á Hólmavík út ágústmánuð eða 300 krónur stykkið. Það eru Ferðamálasamtök Vestfjarða sem gefa kortin út, en Helgi M. Arngrímsson frá Borgarfirði eystra sá um gerð þeirra.

Rýnt í kortin

Rýnt í nýju kortin fjögur. Næsta vor eiga að koma út þau þrjú kort sem upp á vantar til að Vestfirðirnir allir hafi verið kortlagðir í þessari nýju seríu Ferðamálasamtakanna.

Helga Haraldsdóttir skrifstofustjóri ferðamála hjá Samgönguráðuneytinu, Kristján Möller samgönguráðherra, Sævar Pálsson frá Djúpavík sem nú rekur Hótel Flókalund með fleirum og Björn Samúelsson sem stýrir Eyjasiglingum á Reykhólum grúfa sig yfir kortin.

ferdathjonusta/580-gongukort2.jpg

Aðalsteinn Óskarsson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags og Fjórðungssambands Vestfjarða tekur við kortum frá Sævari á Ísafirði .

ferdathjonusta/580-gongukort-adalsteinn.jpg

Kortin eru einkar glæsileg og nýtast vel við skipulagningu gönguferða og hestaferða um byggðir og óbyggðir Vestfjarða, Stranda og Dala. Það er kjörið að tryggja sér eintak strax og byrja að plana gönguátakið mikla næsta sumar.

ferdathjonusta/580-gongukort.jpg

Frá undirbúningsfundi síðasta vetur, Arnar S. Jónsson framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins, Helgi M. Arngrímsson og Sigurður Atlason framkvæmdastjóri Strandagaldurs. Leitað var til fjölmargra heimamanna og þeir beðnir að leggja hönd á plóg og enn vantar yfirlesara og góð ráð fyrir kortin sem verið er að vinna fyrir norðanverðar Strandir, Hornstrandir og Ísafjarðarsýslur.