22/12/2024

Nokkur umferðaróhöpp í síðustu viku

Í síðustu viku var tilkynnt um 6 umferðaróhöpp til lögreglunnar á Vestfjörðum, að því er fram kemur í fréttatilkynningu lögreglunnar um helstu verkefni vikunnar. Á mánudeginum var bifreið ekið út af veginum í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi. Þá var bifreið ekið út af veginum milli Hestfjarðar og Seyðisfjarðar á miðvikudeginum. Engin slys urðu á fólki og sáu eigendur um að fjarlægja bifreiðarnar.

Á föstudagsmorgun var bifreið ekið út af Bíldudalsvegi, í botni Tálknafjarðar, og hafnaði bifreiðin á hvolfi út í Botnsá. Slökkviliðsmenn frá Tálknafirði náðu ökumanninum út úr bifreiðinnni en hann var þá orðinn nokkuð kaldur. Ökumaðurinn var fluttur á sjúkrahúsið á Patreksfirði en reyndist lítið slasaður og fékk að fara heim að lokinni skoðun. Bifreiðin var mikið skemmd. Eitt minniháttar umferðaróhapp varð á Hólmavík á föstudaginn og þrjú minniháttar óhöpp urðu innanbæjar á Ísafirði í vikunni.

Tveir ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í vikunni og var annar þeirra stöðvaður innanbæjar á Ísafirði en hinn á Hnífsdalsvegi. Á þriðjudeginum var einn ökumaður stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Í framhaldi af því var framkvæmd húsleit á heimili mannsins og voru þar haldlögð um 400 grömm af hassi, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, og er þetta mesta magn fíkniefna sem haldlagt hefur verið í einu máli á Vestfjörðum til þessa. 

Ein líkamsárás var kærð eftir að ráðist var á mann í stigagangi fjölbýlishúss á Ísafirði að kvöldi miðvikudags. Sá sem fyrir árásinni varð slasaðist nokkuð í andliti og þurfti aðhlynningu á sjúkrahúsi. Vitað er hverjir árásarmennirnir voru og er málið í rannsókn.