Laugardaginn 2. júlí opnar Þórdís Alda Sigurðardóttir myndlistarmaður sýningu á nýjum lágmyndum sem unnar eru í ull, járn, tré og vax . Þessi verk eru gerð í framhaldi af ferð hennar á Standir sumarið 2004 og eru ýmsir hlutir er urðu á vegi hennar með í verkunum. Þórdís Alda hefur oft fengist við samskeytingar á mjög viðkvæmum efnum svo sem flaueli og silki og grófum, oft ryðguðum, gömlum nytjahlutum eða úr sér gengnum prjónuðum og saumuðum flíkum.
Þórdís Alda hefur löngum verið upptekin af þræðinum í lífinu sjálfu og þar með í verkum sínum. Að þessu sinni ber sýningin einfaldlega heitið „Söguþráður".
Þórdís Alda útskrifaðist úr Myndlista og handíðaskólanum 1984. Stundaði nám í Listaakademíunni í München 1985-86. Hún hefur haldið 9 einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum hér á landi og erlendis.
Sýningin opnar næstkomandi laugardag og verður á Hótel Djúpavík fram á haust. Þess má geta að Hótel Djúpavík á 20 ára afmæli um þessar mundir