10/12/2024

Myndir úr Skarðsrétt

Réttað var í Skarðsrétt í Bjarnarfirði laugardaginn 16. september síðastliðinn. Slatti af kindum kom af fjalli réttarhelgina, í skipulagðri leit í þokkalegu veðri þar sem skiptist á rigning og glampandi sól og hitii. Á föstudeginum fóru 10 menn á Hólsfjall og 12 menn á Balafjöll, en talað var um að kindurnar hafi verið mjög hátt uppi og þurftu leitarmenn að fara hærra en venjulega og héldust kindurnar fyrir ofan brún langt niður eftir fjalli og vildu ekki niður. Komu gangnamenn því seint niður af fjalli og til réttagirðingar með kindurnar en þó leitaðist nokkuð vel.

Á réttardaginn var niðadimm þoka um morguninn og svo reif hann þokuna af sér svo stundum sást nokkuð vel og svo var smá rigning á milli. Á réttardaginn var Tungukotsleit og fóru 14 menn, en skipaðir voru 12 menn á leitarseðlinum. Svo var leitaður Hálsinn og 16 menn voru þar og einnig var leitaður Selárdalur og voru 16 menn á þeirri leit. Síðan var allt féð rekið til Skarðsréttar og réttað þar. Talað var um að lömbin væru nokkuð væn í ár og voru bændur mjög ánægðir með sína dilka. 

Úr Skarðsrétt 2006 – ljósm. Árni Þór Baldursson