12/09/2024

Borðeyrarhátíð í sumar

Ákveðið hefur verið að halda hátíð á Borðeyri í sumar, helgina 28.-30. júlí. Er hátíðin skipulögð af nokkrum fyrrverandi nemendum Barnaskólans á Borðeyri og svo staðarhöldurum á Borðeyri, Sigrúnu Eggerts og Heiðari Þór. Markmið hátíðarinnar er að fá sem flesta fyrrverandi nemendur Barnaskólans á Borðeyri til að hittast ásamt ættingjum og hafa gaman á góðum stað sem er stútfullur af skemmtilegum minningum. Um leið verður haldin hátíð á Borðeyri þar sem allir eru velkomnir sem áhuga hafa á að skemmta sér á sögufrægum stað með góðu fólki á fallegum sumardögum.

Nefndin hefur sent út bréf til fyrrverandi nemenda barnaskólans sem voru í skólanum árin 1952-80, en er það aðallega tímabilið sem Þorbjörn Bjarnason var kennari og Anna Sigurjónsdóttir var ráðskona. Hafa undirtektir verið mjög jákvæðar.

Aðstandendur vonast til að sem flestir nemendur og fjölskyldur þeirra sjái sér fært um að mæta og taki þátt í gleðinni og láti sjá sig strax á föstudeginum, en sá dagur er óskipulagður. Hátíðin fer svo fram á laugardeginum og verður margt sér til gamans gert sem tengist þá skólaverunni og staðnum og um kvöldið  er skipulagður dansleikur með þjóðþekktum skemmtikröftum. Tjaldstæði og hreinlætisaðstaða eru á Borðeyri og einnig gistiheimili í Tangahúsinu og að ógleymdri verslunni Lækjargarði, á einum af elsta verslunarstað landsins, sem mun þjónusta gesti og gangandi.

Borðeyri á fallegum sumardegi