22/12/2024

Minningarmótið um Pál Gunnarsson 20.-22. júní: Strandamenn hvattir til þátttöku!

Páll GunnarssonFjölmargir hafa þegar skráð sig til leiks á stórmóti Hróksins í Djúpavík á Ströndum, sem helgað er minningu Páls Gunnarssonar, og fer fram helgina 20.-22. júní. Mótið er öllum opið og eru vegleg verðlaun í mörgum flokkum. Strandamenn á öllum aldri eru sérstaklega hvattir til þátttöku, og geta leitað upplýsinga hjá Hrafni Jökulssyni í Trékyllisvík í síma 4514026. Tefldar verða 9 umferðir, þrjár föstudagskvöldið 20. júní og sex laugardaginn 21. júní. Umhugsunartími er 20 mínútur fyrir hverja skák. Sunnudaginn 22. júní fer svo fram hraðskákmót í Trékyllisvík.

Meðal skákmeistara sem þegar hafa skráð sig til leiks eru Björn Þorfinnsson, Róbert Harðarson, Elvar Guðmundsson, Einar K. Einarsson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir. Þá munu vinir og félagar Páls Gunnarssonar úr Hróknum fjölmenna og segir Sigrún Baldvinsdóttir dagskrárstjóri hátíðarinnar að menn hafi boðað komu sína siglandi, fljúgandi, ríðandi og akandi.

Fyrstu verðlaun á minningarmótinu eru 100 þúsund krónur, 2. verðlaun 50 þúsund, 3. verðlaun 30 þúsund, 4. verðlaun 20 þúsund og 5. verðlaun 15 þúsund. Þá eru veitt verðlaun fyrir besta frammistöðu Strandamanna, stigalausra skákmanna og skákmanna með minna en 2200 stig. Í hverjum flokki eru 1. verðlaun 15 þúsund, 2. verðlaun 10 þúsund og ný bók í 3. verðlaun. Ennfremur eru veitt 15 þúsund króna verðlaun fyrir bestan árangur kvenna, heldri borgara og grunnskólabarna, auk bókavinninga. Fleiri eiga von á glaðningi, en meðal verðlaunagripa verða handunnin listaverk af Ströndum. Þá verða vegleg verðlaun á hraðskákmótinu, sem haldið verður í kjölfar atskákmótsins.

Skákmenn á öllum aldri eru hvattir til að skrá sig sem fyrst til þátttöku hjá Róbert Harðarsyni (chesslion@hotmail.com) eða hjá Sigrúnu Baldvinsdóttur í (sigrun.baldvinsdottir@reykjavik.is, sími 698-7307) og mun hún m.a. hjálpa fólki við að finna gistingu og veita upplýsingar um hátíðina að öðru leyti.
Gistingu er hægt að fá í Hótel Djúpavík og víðar í Árneshreppi, auk þess sem tjaldstæði er í Trékyllisvík og Norðurfirði. Gestir í Árneshreppi, sem er afskekktasta sveit á Íslandi, eiga í vændum að kynnast stórbrotinni náttúru og sögu við ysta haf.

Páll Gunnarsson (1961-2006) tók þátt í stofnun Hróksins 1998 og tefldi flestar skákir allra liðsmanna félagsins á Íslandsmóti skákfélaga. Páll, sem ættaður var af Ströndum, var einn traustasti liðsmaður Hróksins og tók virkan þátt í skáklandnáminu á Grænlandi. Með mótinu vilja vinir hans, félagar og fjölskylda heiðra minningu þessa góða drengs.