Haustfagnaður í Dölum verður haldinn dagana 23.-24. október næstkomandi og með tilkomu vegarins um Arnkötludal fjölgar þeim Strandamönnum sem geta skroppið á slíkar hátíðir í Dölum. Eitt af því sem verður á dagskránni er Meistaramót Íslands í rúningi, en sú keppni fer fram í Reiðhöllinni í Búðardal og hefst kl. 15:00 laugardaginn 24. október. Nýjung er að bætt verður við flokki óvanra rúningsmanna, en allar nánari upplýsingar og skráningar eru hjá Helga Hauk í síma 865-1717 eða helgi@isbu.is.
Í tengslum við Haustfagnaðinn boða Ístex og Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu jafnframt til samkeppni um frumlegustu lopahúfuna. Einu skilyrðin eru að húfan sé úr íslenskri ull. Mæta þarf með húfuna á haustfagnað á laugardeginum og skrá hana til keppni. Vegleg verðlaun í boði.
Allar nánari upplýsingar um dagskrá Haustfagnaðar er að finna á www.dalir.is, segir í tilkynningu, en fréttaritari verður þó að játa að hann fann þær ekki í fljótu bragði. Þó kemur fram að stórdansleikur með Pöpunum er á dagskrá í Dalabúð laugardaginn 24. október.
Frumlegar lopahúfur sem gerðar voru í prjónakeppni í Sauðfjársetrinu í Sævangi