22/12/2024

Meistaramót í hrútadómum

Árlegt Meistaramót í hrútadómum verður haldið á sunnudaginn kemur í Sævangi við Steingrímsfjörð og hefst kl. 14:00. Það er Sauðfjársetur á Ströndum sem stendur fyrir mannfagnaðinum, en um er að ræða einhverja fjölmennustu skemmtun ársins hjá safninu og eru sumir gestirnir jafnan langt að komnir. Þessi sérkennilega skemmtun fer þannig fram að yfirdómnefnd undir forsæti Jóns Viðars Jónmundssonar tekur fyrirfram nokkra hrúta til skoðunar og velur úr þeim fjóra gripi og raðar þeim í gæðaröð. Síðan eiga keppendur að finna út hver þessi röð er með hendurnar einar og hyggjuvitið að vopni.

Keppt er í tveimur flokkum á meistaramótinu. Annars vegar eru það vanir hrútaþuklarar sem kunna að stiga hrúta á þann hátt sem venja er til þegar þeir eru teknir til skoðunar. Vegleg verðlaun eru veitt í þeim flokki fyrir þrjú efstu sætin, m.a. fær sigurvegarinn titilinn Hrútameistari ríkisins og fallegan farandgrip sem gerður var af Valgeiri Benediktssyni í Árnesi og Búnaðarsamband Strandamanna gaf á síðasta ári til minningar um Brynjólf Sæmundsson ráðunaut.

Hrútameistarar og verðlaunahafar í flokknum fyrir vana hrútadómara til þessa hafa verið:

2003:
1) Björn Torfason á Melum í Árneshreppi
2) Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum
3) Kristján á Melum í Árneshreppi

2004:
1-2) Eiríkur Helgason í Stykkishólmi og Björn Sigurvaldason á Litlu-Ásgeirsá í Víðidal
3) Gréta Karlsdóttir á Efri-Fitjum í Húnaþingi vestra

2005:
1) Björn Þormóður Björnsson á Ytra-Hóli í Vindhælishreppi
2) Elvar Stefánsson í Bolungarvík
3) Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum í Kaldrananeshreppi á Ströndum, Gunnar Dalkvist á Bæ í Árneshreppi og Reynir Stefánsson í Hafnardal í Hólmavíkurhreppi.

Hinn flokkurinn er fyrir óvana og hrædda hrútaþuklara og hefur oft verið fjölmennt í þessum flokki. Keppendur þar þurfa aðeins að skrá niður röðina og láta fylgja stuttan rökstuðning um hvernig þeir komust að niðurstöðunni. Segja má að menn keppist við að komast að gáfulegum niðurstöðum með misgáfulegum aðferðum í þessum flokki. Verðlaunahafar í flokki óvanra hafa verið:

2003:
1) Jón Örn Haraldsson bóndasonur á Hólmavík
2) Dagrún Ósk Jónsdóttir á Kirkjubóli
3) Vilhjálmur Jakob Jónsson á Hólmavík

2004:
1) Guðlaug Elíasdóttir í Bolungarvík
2) Svala Einarsdóttir í Bolungarvík
3) Jón Valur Jónsson á Kirkjubóli

2005:
1) Rebekka Eiríksdóttir á Stað á Reykjanesi í Reykhólahreppi
2) Dagrún Magnúsdóttir í Laugarholti í Skjaldfannadal
3) Victor Örn Victorsson skólastjóri Grunnskólans á Hólmavík

Sögusýning Sauðfjársetursins er opin að venju á hrútadómunum og er aðgangseyrir þar kr. 500.- Einnig er dýrindis kaffihlaðborð á boðstólum og kjötsúpa að hætti Strandamanna fyrir kr. 1.000.-

 

Frá Hrútadómunum 2005